Tveir arkitektar hjá arkitektastofunni Glámu Kími segja að það sé „ekki við hæfi á 100 ára afmælisári fyrstu skipulagslaganna að staðfesta viðmið líkt og þau sem sett eru fram í deiliskipulagstillögu fyrir Heklureit“ og gera við skipulagið allnokkrar athugasemdir. Þeir segja fyrirhugaðan þéttleika íbúðabyggðar of mikinn og fyrir það muni gæði íbúða og göturýmis líða.
Þetta má lesa í umsögn þeirra Jóhannesar Þórðarsonar og Sigbjörns Kjartanssonar við breytingar sem verið er að gera á aðalskipulagi Reykjavíkur fram til ársins 2040, en umsagnarfrestur við skipulagsbreytingarnar rann út í lok ágúst og fékk Kjarninn þær afhentar fyrir skemmstu.
Athugasemdir geti átt við um fleiri reiti
Arkitektarnir tveir segja að þrátt fyrir að athugasemdirnar sem þeir setji fram lúti að Heklureitnum sérstaklega, gætu mörg atriði einnig átt við Orkureitinn svokallaða á mörkum Suðurlandsbrautar og Grensásvegs og einnig nokkur svæði í nýjum borgarhluta í Elliðaárvogi og Ártúnshöfða, sem á að verða eitt helsta vaxtarsvæði Reykjavíkurborgar á komandi árum, með þéttri byggð í grennd við borgarlínustöðvar.
„Undanfarin ár hefur verið bent á galla sem hafa komið fram við uppbyggingu fjölbýlishúsa á þéttingarreitum hér og þar í borginni. Þar virðist sem alúð og metnað skorti við að ná fram lágmarksþörfum um sólarljós og dagsbirtu svo öllum sé gert jafnhátt undir höfði. Það hafa byggst upp íbúðarkjarnar þar sem stór hluti gólfflatar margra íbúða fær litla dagsbirtu og sólar nýtur jafnvel ekki við. Skuggi frá aðliggjandi húsum eða húshlutum móta dimm innirými sem geta ekki talist viðunandi. Götur eru nánast án sólarljóss með tilheyrandi yfirbragði og drunga. Lélegustu íbúðirnar lenda oftar en ekki hjá þeim sem minnst hafa fjárráð og minnsta möguleika eiga á að eignast eða búa í íbúðum sem geta talist góðar. Slíkt fellur ekki undir félagslegan jöfnuð,“ segir í umsögn arkitektanna.
Borgarlína skálkaskjól?
Í umsögninni velta arkitektarnir því upp hvort Reykjavíkurborg sé að fjölga íbúðum og byggðum fermetrum á hvern hektara á þéttingarreitum til að fjármagna strax þann útlagða kostnað sem Borgarlína krefst. Þeir Jóhannes og Sigbjörn segja mikilvægt að í aðalskipulaginu sé skilgreindur rammi fyrir þróun vistvænna samgangna, en það megi ekki vera „á kostnað gæða borgarrýma og íbúða“.
„Í seinni tíð hefur mikið verið talað um hvernig einkabílisminn hafði mótandi áhrif á aðalskipulag Reykjavíkur upp úr miðri síðustu öld og leiddi af sér ofvaxin gatnakerfi, óáhugaverð borgarrými og lélega landnýtingu. Tímabært er að snúa frá þeirri stefnu; en það væri illa ráðið að nota fyrirhugaða byggingu Borgarlínu sem skálkaskjól til að heimila uppbyggingu lélegra íbúða- og borgarrýma í þeim tilgangi að auka arðsemi af fjárfestingum við hana,“ segir í umsögn arkitektanna tveggja.
Þeir Jóhannes og Sigbjörn segja að „því miður virðist sem að sé hið háa byggingarmagn sem sett er fram á Heklureit sé réttlætt með því að greiða þurfi fyrir Borgarlínu með miklu byggingarmagni“ og vísa í því samhengi til viðtals við einn höfunda deiliskipulagsins í útvarpsþættinum Flakk á Rás 1 í sumar.
Þar sagði arkitekt hjá Yrki arkitektum, sem stóðu að gerð deiliskipulagsins, að mikið væri lagt upp úr þéttleikanum á reitnum af hálfu borgarinnar til þess að að borgin geti „rekið þessa Borgarlínu,“ og svo tryggja mætti að hið nýja samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins bæri sig.
Þröngar og skuggsælar götur
Í erindi þeirra Jóhannesar og Sigbjörns til borgarinnar lýsa þeir því að breidd gatna á jarðhæð Heklureitsins verði frá 9,5 metrum upp í 10 metra, með einni undantekningu þar sem gatan verði um 12,6 metrar. Þetta segja arkitektarnir að segi þó ekki alla söguna, þar sem skilmálar í deiliskipulagi heimili allt að tveggja metra útkrag húshliða sem snúa að götum.
„Í raun getur það þýtt að það verði 5,5 til 8,5 metrar á milli húsa fyrir ofan aðra hæð. Svo mjó gata milli hárra húsa verður skuggasund á okkar breiddargráðu,“ segir í erindi arkitektanna, þar sem einnig segir að svo virðist sem „ekkert faglegt mat hafi verið lagt á áhrif vinds (einkum norðanáttar) á hverfið og gæði mannlífs í götuhæð“, einkum á götunum sem liggja norður-suður og við Laugaveg.
„Það ber að harma,“ skrifa Jóhannes og Sigbjörn, og bæta því við að birtuskilyrði í götunum bendi ekki til þess að gróður komi þar með að búa við kjöraðstæður, en honum sé samkvæmt greinargerð með skipulaginu ætlað að slá á vindhviður.
Gagnrýna að gömul hús verði látin hverfa
Arkitektarnir segja einnig að í húsakönnun fyrir Heklureitinn hafi verið eindregið mælt með því að nokkur mannvirki fengju að njóta verndar, en þrátt fyrir það sé stefnt að niðurrifi þeirra, án þess að nokkur rök séu sett fram fyrir því í deiliskipulagstillögunni.
Þetta segja þeir reyndar að hafi „í mörgum tilvikum verið til siðs, og jafnvel þótt sjálfsagt“ við útfærslu þéttingu byggðar, einkum á reitum þar sem fyrir var iðnaður eða atvinnustarfsemi.
Í niðurlagi umsagnar sinnar segja þeir Jóhannes og Sigbjörn að þéttingarstefnan verði að snúast um „lífsgæði, bætt almenningsrými, metnaðarfulla hönnun, félagslegan jöfnuð og ábyrga umhverfisstefnu“ en mega ekki vera frítt spil fyrir fjárfesta og byggingarverktaka né snúast um að fjármagna Borgarlínu á kostnað gæða.
„Við hvetjum til þess að við hönnun nýrra hverfa verði tekið mið af sögu staðarins, veðurfari, vistkerfi og byggingarhefðum,“ skrifa þeir Jóhannes og Sigbjörn.