Tilfelli ebólu hefur greinst í Austur-Afríkuríkinu Úganda. 24 ára karlmaður úr þorpi Mubende-héraði, sem er í miðju landsins, lést og við rannsókn kom í ljós að hann var smitaður af ebóluveirunni. Einnig eru sex óútskýrð dauðsföll fólks af sama svæði til rannsóknar en grunur leikur á, að því er fram kemur í tilkynningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, að fólkið hafi verið með ebólu. Til viðbótar eru átta manneskjur, sem óttast er að séu með veiruna, inniliggjandi á sjúkrahúsi.
Um er að ræða svokallað Súdan-afbrigði ebóluveirunnar og er þetta í fyrsta sinn í meira en áratug sem það greinist í Úganda að sögn Matshidiso Moeti, framkvæmdastjóra WHO í Afríku. Hún bendir á að þar sem Úganda hafi áður þurft að glíma við ebólu sé til þekking til að fást við sjúkdóminn og til að takmarka útbreiðslu hans. Það hafi m.a. orðið til þess að um leið og grunur vaknaði hafi verið gripið til aðgerða.
Tilfelli af svonefndu Zaire-afbrigði veirunnar greindust í Úganda árið 2019. Það hafði borist til landsins með fólki frá nágrannaríkinu Austur-Kongó. Í því landi var faraldur ebólu á þeim tíma.
WHO veitir yfirvöldum í Úganda aðstoð og stuðning vegna tilfellisins sem nú hefur verið staðfest og mögulegs faraldurs. Meðal annars hefur ýmiss búnaður verið sendur til landsins.
Heilbrigðiskerfi Úganda er veikbyggt. Í landinu búa á fimmta tug milljóna manna og aðgengi að læknisþjónustu er mjög takmarkað, sérstaklega í sveitum.
Bóluefni hefur verið þróað og reynt á ebólu. En aðeins gegn veiruafbrigðinu sem kennt er við Zaire. Það hefur enn ekki verið prófað gegn því afbrigði sem nú hefur uppgötvast í Úganda.
Ebóla er alvarlegur og oft lífshættulegur sjúkdómur sem leggst á menn og aðra prímata. Sex afbrigði af veirunni hafa verið greind og þrjú þeirra, meðal annars þau sem kennd eru við Zaire og Súdan hafa leitt til faraldra. WHO bendir á að erfitt sé að meta dánartíðni af völdum ebólu. Hún sé á bilinu 41-100 prósent. Það hafi hins vegar sýnt sig að snemmtækt inngrip í veikindin geti skipt sköpum og dregið verulega úr hættu á dauða.