Í síðustu vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs var fyrirtækinu Lýsi hf. boðið að ganga til samninga um styrk úr sjóðnum þrátt fyrir að skilgreind stærð fyrirtækisins samræmist ekki úthlutunarreglum sjóðsins. Ekki verður samið við fyrirtækið um styrk vegna þessa. Þetta staðfestir Lýður Skúli Erlendsson, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði, en hann leiðir nýsköpunarteymi sviðsins.
„Það virðist sem þessi umsókn hafi farið athugasemdarlaust í gegnum formkröfuskoðun innandyra hjá okkur og ekki hafi komið fram athugasemdir í matsferlinu. Ekki er búið að ganga til samninga um verkefnið ennþá og því engin styrkupphæð sem liggur fyrir. Þegar kemur að samningafundum er farið dýpra í rekstur fyrirtækisins sem samið er við ásamt því að verkefnið er skoðað út frá verk-, tíma- og kostnaðaráætlun. Eftir það er ákveðið hver styrkupphæð verður,“ segir Lýður í svari við skriflegri fyrirspurn Kjarnans um styrkveitinguna.
Að hans sögn eru allar líkur á að stærð fyrirtækisins hefði komið upp við þá nánari greiningu sem unnin er áður en gengið er frá samning um styrk. „Umsókn frá stóru fyrirtæki á vissulega samt ekki að fara áfram í fullt mat og ætti að falla á formkröfum,“ segir í svari Lýðs.
Fyrirtækið hvorki lítið né meðalstórt
Lýsi hf. hafði verið boðið að ganga til samninga um styrk úr Tækniþróunarsjóði í flokknum Vöxtur vegna verkefnisins Lýsi og fríar fitusýrur gegn kórónaveirum og kvefi. Samkvæmt úthlutunarreglum Tækniþróunarsjóðs er fyrirtækjastyrkur í flokknum Vöxtur ætlaður til að styrkja verkefni sem komin eru af frumstigi hugmyndar. Aðalumsækjandi um slíkan styrk getur eingöngu verið lítið eða meðalstórt fyrirtæki en ekki er gerð sambærileg krafa um stærð fyrirtækis sem er meðumsækjandi um styrk.
Lýsi hf. fellur ekki undir þær skilgreiningar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem Tækniþróunarsjóður styður sig við. Í reglum sjóðsins er meðalstórt fyrirtæki skilgreint á eftirfarandi hátt: „Fyrirtæki sem er með á bilinu 50-250 starfsmenn og er með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra sbr. I. viðauka reglugerðar framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014.“
Í ársreikningi Lýsis hf. fyrir árið 2019 sem birtur var í ágúst í fyrra kemur fram að rekstrartekjur hafi numið rúmum 10 milljörðum króna á árinu 2019. Eignir félagsins samkvæmt efnahagsreikningi námu tæpum 12 milljörðum króna. Þessar tölur eru því vel yfir þeim viðmiðum sem sett eru í reglum Tækniþróunarsjóðs. Fjöldi starfsmanna félagsins er engu að síður innan marka, fjöldi ársverka hjá Lýsi var 189 á árinu 2019.
907 milljónir í vorúthlutun
Fram kemur á heimasíðu Rannís að alls hafi 73 verkefnum verið boðið að ganga til samninga um nýja styrki úr Tækniþróunarsjóði í vorúthlutun sjóðsins. Alls bárust 459 umsóknir til sjóðsins og árangurshlutfall styrktra verkefna því 16 prósent. „Í þessari úthlutun eru styrkveitingar til nýrra verkefna 907 milljónir króna á þessu ári en þar sem verkefnin eru til allt að þriggja ára nemur heildarkostnaður vegna þeirra 1.775 milljónum króna,“ segir um vorúthlutunina á heimasíðu Rannís.
Vorúthlutunin í ár er stærsta einstaka úthlutun Tækniþróunarsjóðs frá upphafi en fjárframlög til sjóðsins hafa hækkað. Undanfarið hafa fjárframlög til sjóðsins verið um 2,3 milljarðar króna en fjárveitingar til sjóðsins á árinu 2021 voru hækkaðar í 3,6 milljarða í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs sem samþykkt var á síðasta ári.