Hryðjuverkalögregla í Frakklandi hefur handtekið einn mann grunaðan um hryðjuverk í verksmiðju í frönsku borginni Lyon. Einn maður fannst látinn í verksmiðjunni, og hafði hann verið afhöfðaður. Franskir fjölmiðlar greina frá því að fáni Íslamska ríkisins hafi fundist á staðnum, og að búið hafi verið að skrifa skilaboð á arabísku á höfuð mannsins.
Fregnir herma að margar litlar sprengingar hafi orðið í verksmiðjunni um klukkan tíu að staðartíma. Þá var sagt að tveir árásarmenn hefðu sést keyra inn í verksmiðjuna. Aðeins einn hefur þó verið handtekinn, sem fyrr segir.
Francois Hollande Frakklandsforseti hélt stuttan blaðamannafund rétt í þessu þar sem hann er staddur á leiðtogafundi í Brussel. Hann greindi frá því að tveir til viðbótar við hinn látna væru slasaðir, en greindi ekki nánar frá því. Hann sagði einnig að búið sé að bera kennsl á manninn sem hefur verið handtekinn, en fjölmiðlar höfðu greint frá því í morgun að hann hefði ekki verið með nein skilríki á sér og hafi neitað að tala við lögreglu. Hollande hélt aftur til Frakklands um leið og hann hafði rætt við fjölmiðla í Brussel. „Þetta er hryðjuverkaárás, það er enginn vafi um það,“ sagði hann.