Fyrir borgarstjórnarkosningar sem fram fara á laugardag segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar mikilvægt að borgarbúar átti sig á því að borgarþróunin sé í húfi. Þar verði annars vegar um að velja þróun inn á við með þéttingu byggðar eða að stækka borgarlandið, hort áherslur í fjárfestingum verði innan hverfanna sjálfra eða uppbyggingar á nýjum hverfum þar sem enginn býr.
Þetta kemur fram í máli Dags í kosningahlaðvarpi Kjarnans, Með orðum oddvitanna, en þar sagðist hann sjálfur hafa alist upp í Árbænum þar sem engir göngustígar voru og ekkert íþróttamannvirki, en það hafi verið vegna þess að athyglin var öll á uppbyggingu nýrra hverfa í Reykjavík. Hann segir að með því að stoppa útþenslu borgarinnar geri borgaryfirvöldum kleift að fjárfesta í núverandi hverfum og bæta aðstæðurnar þar.
Fossvogsdals- eða Geldinganeslaug?
Dagur segir minnihlutann í borgarstjórn hafi gagnrýnt metnaðarfullar áætlanir meirihlutans um uppbyggingu innan hverfa en vilji á sama tíma fara í uppbyggingu á Geldinganesi og spyr hvaða verkefnum innan borgarinnar í þeirri mynd sem hún er í dag eigi að falla frá. Sem dæmi nefnir hann að í núverandi mynd búi allir borgarbúar í göngu- eða hjólafæri við sundlaug, nema íbúar í Fossvogi, og þess vegna sé nú hafinn undirbúningur um uppbyggingu næstu sundlaugar þar. „Hún gæti hins vegar verið að fara í samkeppni við uppbyggingu sundlaugar í Geldinganesi ef áherslan ætti að fara þangað á næsta kjörtímabili,“ segir Dagur.
Þá nefnir Dagur mikilvægi langtímayfirsýnar og þess að muna að ekki sé hægt að gera allt í einu. Hann segir að í borginni hafi það lengi vel verið þannig að verkefni kæmust í framkvæmd eftir því hver togaði fastar. Langtímaforgangsröðunaráætlanir séu nú til um uppbyggingu íþróttamannvirki, viðbyggingar og meiriháttar endurbætur á skólahúsnæði til næstu 10 ára. Það tryggi faglega framkvæmd byggða á heildarhagsmunum borgarbúa. Sams konar áætlun hafi veirð gerð fyrir skólalóðir, með þeirri hugmynd að þær ættu að verða leiksvæði fyrir hverfin en ekki aðeins nemendur hvers skóla, þar sem áætlun var gerð eftir ástandi og nemendafjölda, henni fylgt eftir og hún kláruð.
Hugsanlega jákvætt að flugvöllurinn sé enn á sínum stað
Hvað uppbyggingu í Vatnsmýri varðar segir Dagur að þar hafi þegar farið fram mikil uppbygging, meðal annars á Hlíðarenda og við háskólana, auk þess sem til standi að fara í frekari uppbyggingu í Skerjafirði. Í tengslum við flugvöllinn sé niðurstaða beðið varðandi mat á mögulegu flugvallarstæði í Hvassahrauni, sem liggja eigi fyrir í lok þessa árs. Verði gefið grænt ljós á það liggi fyrir samkomulag um uppbyggingu þess flugvallar, og þegar hann verði tilbúinn verði farið í frekari uppbyggingu í Vatnsmýrinni, í fyrsta lagi árið 2032. Dagur segir þó hugsanlega jákvætt að flugvöllurinn hafi ekki horfið frá fyrir 20 árum, þar sem svo margt hafi lærst í uppbyggingu og þéttingu byggðar á síðustu áratugum og að vanda verði vel til verka við slíka uppbyggingu sem hægt verði að fara í á svæðinu.
Borgarlína betri fyrir alla og jarðgöng undir Miklubraut
Önnur helsta ástæða þess að Dagur vill vera áfram er að framkvæmdir við Borgarlínu eru að hefjast. Hann segir mikilvægt að muna að Borgarlínan sé ekki einhver hugmynd frá meirihlutanum í Reykjavík heldur niðurstaða greiningar á þörfum höfuðborgarsvæðisins til lengri tíma. Samgönguinnviðir muni ekki bera þá fólksfjölgun sem muni eiga sér stað ef allir verða á einkabíl. Borgarlínan muni skapa betri samgöngumöguleika fyrir alla, ekki bara notendur hennar heldur líka þá sem kjósi að vera á bíl.
Þá sé frumhönnun vegna umferðar um Miklubraut á leið í útboð, en greiningar bendi til þess að það geti verið áhugaverður kostur að gera þar jarðgöng í stað stokks, bæði vegna framkvæmdatíma og veitumála. Göngin yrðu þá lengri en hugsanlegur stokkur, 2,5 km í stað 1,5 og myndu liggja frá Landspítalanum að Grensásvegi og hugsanlega væri hægt að komast upp á einum öðrum stað. Kostnaður við þessar framkvæmdir liggi ekki fyrir, en að þrátt fyrir að jarðgöngin yrðu lengri myndi sparast talsvert við að fara undir stóru veiturnar og að minna rask verði á yfirborðinu. Helsta áskorunin verði þó að útfæra umferð á meðan á framkvæmdum stendur.
Aðspurður segist Dagur ætla að sjálfsögðu ætla að vera út kjörtímabilið, hann líti svo á að hann sé í framboði til loka kjörtímabilsins sem kosið verður um á laugardag, en hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan.