Ungur maður frá Súdan fannst látinn í morgun í Calais í Frakklandi, þar sem Ermasundsgöngin yfir til Bretlands eru. 1.500 tilraunir voru gerðar í nótt til að komast inn í göngin.
Maðurinn sem lést er sagður á aldrinum 25 til 30 ára og frá Súdan. Líklegt er talið að hann hafi orðið fyrir vöruflutningabíl sem verið var að flytja úr ferjunni sem einnig fer yfir Ermasundið. Maðurinn er níundi flóttamaðurinn sem lætur lífið í eða við göngin á undanförnum vikum, en gríðarlegur fjöldi fólks hefur reynt að komast um göngin. Öryggiseftirlit hefur verið hert til muna í Calais til að koma í veg fyrir að flóttafólk geti komist um borð í flutningabíla og önnur farartæki til að komast til Bretlands.
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, stjórnar nú neyðarfundi vegna vandans.
Samkvæmt nýjustu tölum Frakka eru um þrjú þúsund manns í bráðabirgðaflóttamannabúðum í Calais. Flestir eru frá Eþíópíu, Eritreu, Súdan og Afganistan.
Um tvö þúsund manns reyndu að komast í gegnum girðingarnar við Ermasundsgöngin á mánudag. Stjórnendur ganganna hafa gagnrýnt stjórnvöld vegna úrræðaleysis, ástandið væri óásættanlegt. Bresk stjórnvöld ætla að verja sjö milljónum punda í að styrkja girðingar og aðrar öryggisráðstafanir.