Þetta hljómar eins og handrit að kvikmynd. Ungur maður situr á kaffihúsi með vini sínum þegar tvær konur ganga framhjá. Sú fyrri þekkir vininn en hin horfir feimnislega á unga manninn sem starir á móti og heilsar vandræðalega. Þetta var ást við fyrstu sýn og síðan þá hafa þau verið óaðskiljanleg – prinsinn og almúgastúlkan. Auðvitað hlaut þetta að vera prins því annars væri sagan ekki jafn góð og auðvitað er hún húðflúrað nektarmódel sem hefur tekið þátt í raunveruleikaþætti. Nú vantar bara Juliu Roberts í hnéháum leðurstígvélum í aðalhlutverkið, já eða einhverja yngri því Julia er komin langt fram yfir síðasta söludag.
Stundum er raunveruleikinn furðulegri en kvikmynd eða kannski eru það bara fjölmiðlarnir sem gera ósköp eðlilega sögu að einhverri sýningu. Í gær kvæntist Karl Filippus, Svíaprins, unnusti sinni Sofiu Hellqvist á björtum og fallegum sólardegi í Stokkhólmi. Hann er þriðji í röðinni að krúnunni á eftir systur sinni Viktoríu krónprinsessu og dóttur hennar Estelle.
Eins og venjulega þegar um er að ræða stóra atburði í konungsfjölskyldunni var margra klukkutíma bein útsending í sænska sjónvarpinu og dagblöð og tímarit hafa verið full af fréttum af undirbúningnum síðustu daga og vikur. Talið er að brúðkaupið kosti um 10 milljónir sænskra króna eða rétt tæplega 160 milljónir íslenskra, en þar af er beinn kostnaður skattgreiðanda aðeins litlar fjórar milljónir sænskra, sem þykir víst vel sloppið. Ein af þessum milljónum fellur reyndar á lögregluna vegna kostnaðar við löggæslu, sem er aðeins brot af þeim 17 milljónum sem lögreglan þurfti að punga út vegna brúðkaups Viktoríu fyrir nokkrum árum.
Brúðhjónin láta vel hvort að öðru í vitna viðurvist. Mynd: EPA
Goðsögnin um jákvæð áhrif og fleiri ferðamenn
Þegar rætt er um kostnaðinn við brúðkaupið og reyndar konungsfjölskylduna alla eru stuðningsmenn hennar fljótir að minnast á þau jákvæðu áhrif sem hún hefur á ferðamennsku og ímynd Svíþjóðar. Visit Sweden er eins konar Íslandsstofa Svía og þar vilja menn meina að brúðkaupið hafi góð áhrif á allt markaðsstarf. Framkvæmdastjórinn sagði í viðtali við SVT að ferðamenn kaupi vörur og þjónustu fyrir um 100 milljarða sænskra króna á ári og að fleiri gestir þýði auknar tekjur. Hann passaði sig reyndar á því að nefna aldrei beinar tölur í sambandi við brúðkaupið enda skutu þeir langt yfir markið í spádómum sínum fyrir brúðkaup krónprinsessunnar.
Þá var mikið rætt um það hversu góð áhrif brúðkaupið myndi hafa á ferðamannaiðnaðinn og auknar tekjur fyrir fyrirtæki í Stokkhólmi. Þegar árið var gert upp kom í ljós að það var engin aukning í kringum brúðkaupið og að meintur hagnaður var nánast upp á krónu sá sami og á venjulegum laugardegi í borginni.
Engu að síður mátti lesa fréttir í gær um mannfjöldann sem safnaðist saman og beið þess að sjá brúðhjónin aka frá kirkjunni að höllinni þar sem veislan var haldin. Fólk mætti snemma til að ná bestu stöðunum og innan um heimamenn mátti sjá hressa Finna sem þurfa víst að láta sér nægja þjóðkjörinn forseta. Þegar fréttirnar eru lesnar er auðvelt að álykta sem svo að töluvert stór hópur hafi safnast saman og að þúsundir hafi fyllt göturnar til að hylla brúðhjónin. En það var bara ekki þannig.
Þegar sá sem þetta skrifar gekk framhjá konungshöllinni um það leyti sem athöfnin hófst var ekki hægt að sjá að fleira fólk væri á ferli en á venjulegum sólardegi í Stokkhólmi. Og þótt fólk hafi staldrað við og fylgst með hestvagni brúðhjónanna virtust flestir á leið inn í H&M eða aðrar búðir.
Klappað í kirkjunni
Brúðhjónin hafa verið opin og einlæg í viðtölum og óhrædd að sýna ást sína á opinberum vettvangi. Athöfnin sjálf var því nokkuð ólík hefðbundnum konunglegum brúðkaupum því parið var ákveðið í að gera athöfnina persónulega. Helst var það tónlistarvalið sem kom á óvart, meðal annars sænskar útgáfur af Coldplay laginu Fix You og laginu Umbrella með Rihönnu en það vakti óskipta athygli þegar gospelsöngvarinn Samuel Ljungblahd bað fólk um að klappa með í laginu Joyful Joyful.
Veislan um kvöldið þótti einnig óvenju afslöppuð. Prinsinn hélt fallega ræðu þar sem hann sagði að það krefðist hugrekkis að velja ástina þótt vegurinn væri grýttur og Sofia samdi ljóð til brúðgumans sem flutt var af þekktum tónlistarmönnum í veislunni. Kvöldverðinum lauk um ellefu en þá tók við veisla fram á nótt og var sérstaklega tekið eftir því að konungshjónin fóru ekki úr partýinu fyrr en um hálfsex um morguninn. Af myndum má ráða að fólk hafi skemmt sér vel og meðal annars mátti sjá Silvíu drottningu á sviðinu þykjast syngja í míkrafón eins og fólk gerir í góðum veislum.
Húðflúr og naflahringur
Eins og minnst var á hér að framan er fortíð Sofiu ekki beint hefðbundin fyrir prinsessu. Hún vakti fyrst athygli á sér þegar hún var kjörin ungfrú Slitz árið 2004 af lesendum brjóstablaðsins en þar sat hún berbrjósta fyrir á myndum með stórri slöngu. Árið síðar tók hún svo þátt í raunveruleikaþættinum Paradise Hotel sem helst virðist ganga út á að láta ungt fallegt fólk líta út fyrir að vera enn vitlausara en það er.
Þegar Sofia og Karl tóku að stinga saman nefjum urðu margir ákaflega hneykslaðir, ekki bara út af myndunum, heldur líka út af naflahring og húðflúrum verðandi Svíaprinsessu. Það tók líka nokkuð langan tíma að fá samþykki konungsfjölskyldunnar og til þess að prinsinn fengi að kvænast Sofiu þurfti konungurinn faðir hans að veita til þess formlegt leyfi.
Fjölmiðlar hafa skilmerkilega fjallað um kröfur konungsfjölskyldunnar varðandi naflahringinn sem skyldi fjarlægður fyrir brúðkaupið. Enda ganga prinsessur ekki um með hringi í naflanum eins og allir vita. Hins vegar var erfiðara að ráða við húðflúrin sem eru ekki bara eitt og ekki tvö og mátti meðal annars sjá eitt þeirra þegar brúðurinn tók af sér slæðuna. Sofia segist ekki skamma sín fyrir fortíðina. Hún hafi lært af þessu og vilji nú einbeita sér að góðgerðarstörfum og því að gera prinsinn að hamingjusamasta manni í heimi.
Konunglegu brúðhjónin heilsa upp á mannfjöldann. Mynd: EPA
Hefðbundin blaðamennska tekur sér frí vegna brúðkaups
Umræðan um konungsfjölskylduna er nokkuð klofin í Svíþjóð. Annars vegar eru þeir sem telja hana mikilvægt sameiningartákn og nauðsynlegan hluta af sögu lands og þjóðar, en hins vegar þeir sem skilja ekki hvaða hlutverki hún gegnir í lýðræðissamfélagi nútímans. Konungleg brúðkaup ættu að vera kjörin tækifæri til að ræða þetta hlutverk enda leggst stór hluti útgjaldanna á skattgreiðendur.
Hins vegar er eins og hefðbundin blaðamennska falli niður þessa daga og vikur og gagnrýnisraddir fá lítið pláss. Rithöfundurinn Jan Guillou orðar það þannig í vikulegum pistli að vitræn umræða fari í leyfi við konungleg brúðkaup. Vissulega má samfagna brúðhjónunum enda völdu þau sér ekki foreldra. Það breytir því þó ekki að það eina sem gerðist í Stokkhólmi í gær var að kona giftist manni… unnust þau bæði vel og lengi, áttu börn og burur, grófu rætur og murur; köttur úti í mýri, setti upp á sér stýri, úti er ævintýri.