Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu, gagnrýnir vaxtahækkanir Seðlabankans og röksemdir Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra fyrir þeim harðlega í grein sem hann ritar á Vísi í dag.
Í greininni segir Stefán að „ofneysla efnaðri hluta þjóðarinnar“ sé vandamálið sem við sé að etja hvað varði mikla einkaneyslu landsmanna. Vaxtahækkanir, með auknum byrðum á almennt launafólk, séu ekki svarið við þessari ofneyslu.
„Það sem væri eðlilegra að gera væri að setja strax á aukna skatta á hærri tekjuhópa og stóreignafólk, til að hemja ofneyslu þeirra sem eru að skapa þennan vanda. Jafnvel mætti takmarka utanlandsferðir eða skattleggja þær sérstaklega til að hemja óhófið,“ skrifar Stefán í grein sinni.
Að sama skapi segir hann að þessi staða verði að ráða því hvernig gengið verður frá kjarasamningaviðræðunum sem nú standa yfir. „Hækkanir launa þurfa að verða meiri í lægri launahópum og ríkið þarf að lækka skatta á lægri tekjuhópa og auka húsnæðisstuðning stórlega og aðrar tekjutilfærslur til heimila,“ skrifar Stefán.
Seðlabankastjóri með hugann við eyjuna grænu
Á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun, þar sem farið var yfir forsendur tíundu vaxtahækkunarinnar frá því í maí í fyrra, kom spænska eyjan Tenerife fyrir í máli Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóra, sem benti á að vöxtur einkaneyslu hefði verið umfram það sem Seðlabankinn hefði gert ráð fyrir. Það hefði komið fram meðal annars í lækkun á gengi krónunnar.
„Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri,“ sagði seðlabankastjóri á fundi morgunsins og setti ferðir landsmanna til Tenerife í samhengi við inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði – Seðlabankinn gæti „ekki fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum“.
Í grein sinni segir Stefán Ólafsson að það sé „fólkið sem er með hærri tekjurnar og á meiri eignir sem skapar vandann.“
„Það eru þau sem fara fimm sinnum til Tenerife á ári. Síðan tekur Seðlabankinn að sér að leggja verulega auknar vaxtabyrðar á skuldugt fólk í lægri tekjuhópunum – til að draga úr neyslu þeirra. Það er verið að hengja verkafólk fyrir hátekjufólk,“ skrifar Stefán.
Stýrivextir voru hækkaðir um 0,25 prósentustig í morgun og eru nú 6 prósent. Hafa þeir nú ekki verið hærri síðan haustið 2010.