Magnús Júlíusson hefur verið ráðinn annar aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þegar hafði verið gengið frá því að Eydís Arna Líndal yrði hinn aðstoðarmaður ráðherrans, en hún gegndi þeirri stöðu einnig þegar Áslaug Arna var dómsmálaráðherra. Hinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu í dómsmálaráðuneytinu var Hreinn Loftsson lögmaður, en hann ákvað um síðustu mánaðamót að halda kyrru fyrir og aðstoða nýjan dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson. Hreinn tilkynnti svo í gær að honum hefði snúist hugur og væri hættur sem aðstoðarmaður Jóns.
Samkvæmt tilkynningu á vef stjórnarráðsins hefur Magnús verið virkur í félagsstörfum og hefur meðal annars setið í íslensku UNESCO-nefndinni, gegnt embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, setið í stjórn handknattleiksdeildar Víkings, gegnt embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík og setið í háskólaráði Háskólans í Reykjavík.