Skaðabótamáli sem félög tengd eggjaframleiðandanum Brúnegg ehf. höfðuðu gegn Ríkisútvarpinu og Matvælastofnun var í dag vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Félögin Bali ehf. og Geysir-Fjárfestingarfélag ehf., sem áður voru hluthafar í Brúneggjum, þurfa að greiða bæði RÚV og Matvælastofnun 400.000 kr. hvoru um sig í málskostnað.
Málið varðar umfjöllun RÚV um Brúnegg, sem birtist í þætti Kastljóss 28. nóvember 2016, en í þættinum var sagt frá því að Brúnegg hefði, að mati Matvælastofnunar, blekkt neytendur árum saman með því að notast við merkingar sem héldu því fram að framleiðsla fyrirtækisins á brúnum eggjum væri vistvæn og að varphænur þess væru frjálsar.
Í krafti þess kostuðu eggin um 40 prósent meira en þau egg sem flögguðu ekki slíkri vottun. Kastljós fékk aðgang að gögnum um afskipti Matvælastofnunnar af Brúneggjum og í þeim kom í ljós að stofnunin hafði í tæpan áratug haft upplýsingar um að Brúnegg uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar. Það væri því að blekkja neytendur. Atvinnuvegaráðuneytið hafði líka þessar upplýsingar, en neytendum var ekki greint frá þeim.
Tryggvi Aðalbjörnsson fékk Blaðamannaverðlaun ársins 2016 fyrir rannsóknarblaðamennsku vegna umfjöllunar sinnar um fyrirtækið. Hægt er að horfa á umfjöllunina í heild sinni hér.
Allar stærstu verslunarkeðjur landsins, þar á meðal lágvöruverslanarisarnir Bónus og Krónan, tóku Brúnegg, sem samkvæmt því sem fram kemur í dómi héraðdóms var með um 20 prósent markaðshlutdeild, úr sölu hjá sér eftir Kastljós-þáttinn.
Fyrir vikið hrundu tekjur fyrirtækisins mjög hratt, sem leiddi til gjaldþrots snemma árs 2017. Fyrr á árinu sagði Þóra Arnórsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Kastljóss, frá því að fyrrverandi hluthafar Brúneggja hefðu lagt fram skaðabótakröfur fyrir dómi vegna þessarar umfjöllunar frá 2016.
Í kröfum fyrrverandi hluthafa Brúneggja fyrir dómi sagði að umfjöllunin hefði verið „ósanngjörn, röng og afar villandi“ og hefði byggst á gömlum athugasemdum frá Matvælastofnun, sem búið hefði verið að bregðast við. Í umfjölluninni hefði ekki verið skeytt um hver staða mála hefði verið hjá Brúneggjum á þeim tíma er þátturinn var sýndur og að eggjaframleiðandinn hefði ekki verið upplýstur um eðli umfjöllunarinnar áður en þátturinn fór í loftið.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu segir að málatilbúnaður hluthafanna fyrrverandi hafi ekki verið skýr í gríðarlangri stefnu málsins. Þar hefði einungis verið í örfáum málsgreinum vikið að því af hverju dómurinn ætti að viðurkenna skaðabótaábyrgð RÚV og Matvælastofnunar gagnvart félögunum Bala og Geysi-Fjárfestingafélagi.
Þessir fyrrverandi hluthafar Brúneggja eru í niðurstöðu dómsins ekki sagðir hafa gert grein fyrir grundvallaratriðum varðandi tjón sitt og tengslum þess tjóns við atvik málsins. Því eru kröfur þeirra ekki taldar tækar til úrlausnar fyrir dómi, og málinu vísað frá, sem var aðalkrafa bæði RÚV og Matvælastofnunar.