Afskipti ráðherra að rannsókn lögreglu geta flokkast sem hegningarlagabrot, ef um er að ræða beinar skipanir frá ráðherranum til undirmanns hennar um að haga rannsókninni á ákveðin hátt. Samkvæmt heimildum Kjarnans var það kannað af ríkissaksóknara hvort þau samskipti sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra, átti við Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, væru þess eðlis að þau væru mögulega hegningarlagabrot. Niðurstaðan hafi verið að svo sé ekki. Því er dómur Hönnu Birnu í lekamálinu sú pólitíska ábyrgð sem hún hefur þurft að axla með afsögn sinni sem ráðherra.
Umboðsmaður Alþingis birti í morgun niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns vegna rannsóknar lekamálsins svokallaða. Þar sagði meðal annars að að ráðherra hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt í samskiptunum.
Umboðsmaður segir að afstaða Hönnu Birnu til athugunar hans hafi breyst eftir að hún sagði af sér sem innanríkisráðherra í lok nóvember 2014. „Eftir það hefur hann [ráðherrann fyrrverandi] lýst því í bréfi til mín 8. janúar 2015 að það hafi verið mistök af hans hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna lögreglurannsóknarinnar meðan hún stóð yfir. Í sama bréfi kemur einnig fram breytt afstaða til þess hvert hafi verið efni samskiptanna við lögreglustjórann og til lagareglna sem reynir á í málinu frá því sem komið hafði fram í fyrri svörum ráðherra og skýringum.“
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í nóvember 2014 fyrir að leka minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos til mbl.is og Fréttablaðsins í nóvember 2013. Gísli Freyr játaði brotið daginn áður en mál hans fór fyrir dóm.