Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir að mál sem snýst um rasísk ummæli hans um Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna á Búnaðarþingi fyrr í vetur hafi legið þungt á honum, fjölskyldu hans og vinum.
Þetta kom fram í máli hans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun þegar Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata spurði hvort ummælin hefðu verið í óþökk framkvæmdastjórans, hvort þau hefðu haft þannig áhrif að virðingu hennar hefði verið misboðið og hvort þau hefðu leitt til niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna.
Arndís Anna sagði að ráðherra hefði láðst að koma fyrir fjölmiðla og þingið til að tala um málið en það væri mikilvægt að ráðherra gerði grein fyrir stöðu sinni í þingsal og gagnvart þjóðinni.
„Á síðasta þingi voru samþykkt lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Með lögunum er meðal annars lagt bann við hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna og á þetta einnig við um áreitni þegar hún tengist kynþætti eða uppruna,“ sagði hún og las um skilgreiningu í lögunum á hugtakinu áreitni: „Hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna.“
Spurði hún hvort þetta ætti við um ummæli ráðherrans.
„Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein“
Málið fór hátt í fjölmiðlum í apríl en Vigdís sjálf tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum í kjölfarið. Þar sagði hún að „afar særandi ummæli“ hefðu verið látin falla og að hún hefði heyrt þau, sem og fleira starfsfólk Bændasamtakanna. Vigdís sagði að hún hefði aldrei talið að hún þyrfti að setjast niður og skrifa yfirlýsingu af þessu tagi. „Ég hef aldrei látið húðlit, kynþátt, kynferði eða annað skilgreina mig. Ég hef alltaf talið að verk mín og gjörðir töluðu fyrir sig sjálf, en núna tel ég mig knúna til að tjá mig um það sem gerðist,“ skrifaði hún.
„Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn,“ skrifaði hún jafnframt.
Sigurður Ingi baðst afsökunar á ummælunum síðar í sömu viku eftir að Vigdís tjáði sig um málið. Þau hittust á fundi nokkrum dögum síðar og meðtók hún afsökunarbeiðni hans.
Er þetta vegna þess að sveitarstjórnarkosningar eru í vændum?
Sigurður Ingi sagði á þinginu í morgun að það væri þungbært og þungbærara en hann bjóst við, eftir að hafa verið svona lengi í stjórnmálum, að upplifa það dag eftir dag í þinginu í tiltekinn tíma af tilteknum stjórnmálamönnum og af einstökum fjölmiðlum að vera borinn þungum sökum „um eitthvað allt annað“.
„Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé eitthvað í mínu fari persónulega eða eitthvað sem stjórnmálamaðurinn Sigurður Ingi hefur staðið fyrir sem bendir til að þetta sé svona. Eða er það bara vegna þess að það eru sveitarstjórnarkosningar eftir hálfan mánuð og Framsóknarflokkurinn er farinn að taka fylgi af öðrum flokkum?“ spurði hann og uppskar hávær mótmæli úr þingsal.
„Er það virkilega svo? Ég á ekki auðvelt með að grínast með þetta mál. Það hefur tekið þungt á mig, mína fjölskyldu og mína vini. Ég hef beðist afsökunar. Sú afsökunarbeiðni hefur verið meðtekin. Við vorum sammála um að ræða það ekki frekar og ég mun virða þá ósk,“ sagði ráðherrann.
Málið stærra en svo að það lúti eingöngu að ráðherranum
Arndís Anna sagði í kjölfarið að Sigurður Ingi hefði ekki svarað spurningu hennar um það hvort ummælin hefðu fallið innan skilgreininga laganna.
„Það er það sem ég er að velta fyrir mér hér. Ég tel að þetta mál sé stærra en svo að það lúti eingöngu að persónulegum samskiptum ráðherra þar sem ráðherra er í stöðu gagnvart þjóðinni, annarri heldur en aðrir meðlimir hennar.
Síðari spurning mín varðar traust. Nú er það ljóst að traust í garð ríkisstjórnarinnar hefur hríðfallið á síðustu vikum og væri stjórnin fallin ef blásið væri til kosninga í dag. Traust í garð innviðaráðherra hefur einnig fallið og þá gætir ekki einvörðungu áhrifa af bankasölunni heldur spila ummæli ráðherrans væntanlega sína rullu líka. Ég vil því spyrja ráðherra um traust: Hvernig hyggst ráðherra axla ábyrgð og endurbyggja traust? Það er ekki nóg að biðjast afsökunar, orðum verða að fylgja aðgerðir. Hvað ætlar ráðherra og hans flokkur að gera til að berjast gegn kynþáttafordómum í samfélaginu, uppræta þá, standa vörð um mannréttindi og velferð fólks af erlendum uppruna?“ spurði hún.
Fagnar öllum sem hingað koma
Ráðherrann svaraði í annað sinn og sagði að það væri rétt að það mikilvægasta í stjórnmálum væri traust.
„Þess vegna hef ég unnið alla mína ævi í stjórnmálum að því að byggja upp traust með því að framkvæma hluti í sama takti og ég stend fyrir og ég mun halda því áfram. Það mun Framsóknarflokkurinn gera áfram, ekki síst á því sviði sem við eigum svolítið erfitt með þessa dagana, og ég er ekki að vísa til þessa máls heldur bara almennt. Það er vaxandi pólarísering í heiminum og við höfum áhyggjur af því að hún geti átt sér stað hér.
Við erum betra samfélag en oft er lýst hér úr þessum ræðustól, mun betra, en við getum alltaf gert betur. Ég held að við ættum að forðast það sem við höfum til dæmis séð á Norðurlöndunum, sem við horfum oft til þegar kemur að innflytjendum og umræðu um þá. Við höfum sem betur fer verið betur stödd þar. Við höfum fagnað og ég fagna öllum þeim sem hingað koma og göfga samfélag okkar. Ég hef sagt það margoft í þessum stól og ég mun halda því áfram,“ sagði hann að lokum.