Laun kjörinna fulltrúa voru hækkuð í dag. Þingfarakaupið hækkaði um 4,7 prósent í dag og er nú 1.346 þúsund krónur á mánuði. Alls hækkuðu grunnlaun kjörinna þingmanna um 60.171 krónur.
Til viðbótar við ofangreint geta þingmenn fengið ýmiskonar viðbótargreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til vegna starfsins, eða aukastarfa á borð við nefndarformennsku.
Laun ráðherra hækkuðu um sama hlutfall og þingmanna en mun meira í krónum talið, eða um 99.791 krónur á mánuði. Ráðherrarnir eru nú með 2.232 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Laun forsætisráðherra eru samansett af grunnlaunum, sem taka mið af þingfarakaupi, en ofan á það leggst álagsgreiðsla. Alls eru laun Katrínar Jakobsdóttur 2.470 þúsund krónur á mánuði frá deginum í dag og hækka um 110 þúsund krónur milli ára.
Þetta má lesa út úr nýbirtum launatöflum um laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar sem birtar voru á vef stjórnarráðsins í dag, en laun þeirra taka breytingum 1. júlí ár hvert.
Gefur vel að vera forseti og stýra ráðuneyti eða seðlabanka
Ráðuneytisstjórar eru ekki miklir eftirbátar yfirmanna sinna þegar kemur að launum. Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu fær 2.221 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun, sem eru samansett af grunnlaunum og fastri álags- og yfirvinnugreiðslu, og kollegar hennar í hinum ráðuneytunum fá 2.108 þúsund krónur á mánuði fyrir skatta.
Aðrir háttsettir embættismenn sem fengu launahækkun í dag eru, dómarar, saksóknarar, lögreglustjórar, varaseðlabankastjórar og ríkissáttasemjari.
Fengu ofgreidd laun upp á 105 milljónir króna
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag mun þessi hópur þó ekki fá launin sín að öllu leyti næstu mánuði. Ástæðan er sú að frá 2019 hafa þau verið ofgreidd um samtals 105 milljónir króna vegna mistaka hjá fjársýslu ríkisins við útreikning þeirra.
Mistökin gerðu það að verkum að alls 260 þjóðkjörnir fulltrúar og háttsettir embættismenn, þar af 215 sem eru enn að störfum, fengu of mikið borgað.
Þau uppgötvuðust þegar Fjársýslan var að uppfæra krónutölufjárhæð launa þeirra sem falla undir lög um laun þessa hóps frá árið 2019, til samræmis við tölur Hagstofunnar í samráði við kjara- og mannauðssýslu ríkisins.
Í tilkynningu á vef stofnunarinnar er beðist afsökunar á þessu og sagt að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að ofgreiddu launin verði endurgreidd. „Algengt er að endurgreiðslufjárhæð svari til um þriðjungs einna mánaðarlauna hjá þeim sem þáðu laun yfir allt tímabilið. Endurgreiðslan fer fram í áföngum á 12 mánaða tímabili.“
Samkvæmt þessu geta þingmenn átt von á því að þurfa að greiða rúmlega 400 þúsund krónur til baka vegna ofgreiddra launa og forsætisráðherra rúmlega 800 þúsund krónur.
Fá launahækkun í takti við þróun launavísitölu
Lögin sem ákveða laun þessa hóps voru sett árið 2019, í kjölfar þess að Kjararáð var lagt niður. Það ráð ákvað í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra gríðarlega. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Þessi gríðarlega hækkun var harðlega gagnrýnd víða og varð til þess að ákveðið var að breyta því hvernig laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna yrðu reiknuð. Það var gert með lögum árið 2019 og frá þeim tíma hækka þau í takti við þróun launavísitölu. Í síðustu kjarasamningum, svokölluðum lífskjarasamningum, var hins vegar samið um krónutöluhækkanir fyrir flestar stéttir.
Í ljósi þess að laun þessa hóps eru mun hærri en meðallaun í þjóðfélaginu, en miðgildi reglulegra heildarlauna í fyrra var 696 þúsund krónur. Það þýðir að helmingur launamanna var með laun undir þeirri tölu. Ef sá sem var með 696 þúsund krónur í laun hækkaði um sama hlutfall og þjóðkjörnir fulltrúar og æðstu embættismenn gerði í dag myndi viðkomandi fá um 33 þúsund krónur til viðbótar í laun fyrir skatt, eða 77 þúsund krónum minna en laun forsætisráðherra hækkuðu um í byrjun yfirstandandi mánaðar.