Rusl á hafsbotni við Ísland má nær eingöngu rekja til sjávarútvegs og 92 prósent alls rusl þar finnt er úr plasti. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um rusl á hafsbotni við Ísland.
Í skýrslunni má finna samantekt á skráningu rusls við kortlagningu búsvæða á hafsbotni 2004-2019. Niðurstöður skýrslunnar byggja á dreifingu og samsetningu rusls á hafsbotni út frá myndefni sem var tekið fyrir verkefnið Kortlagning búsvæða á hafsbotni.
Trollnet, önglar, plastpokar og áldósir
Alls fundust 307 ruslaeiningar á 15 svæðum, allt frá önglum til trollneta. Veiðarfæri voru algengasta tegund rusls, eða 94 prósent, og var megnið af því fiskilína, eða 81%. Almennt rusl eins og plastpokar, plastfilmur, áldósir, hreinlætisvörur og fleira fannst sjaldnar, eða í um sex prósent tilvika.
92 prósent ruslsins sem fannst á hafsbotni er úr plasti, með þeim fyrirvara að gert er ráð fyrir að fiskilínur, trollnet, reipi og bandspottar séu úr plasti. „Flest nútíma veiðarfæri eru gerð úr sterkum plastefnum sem taka afar langan tíma að brotna niður. Því mun magn rusls á hafsbotni einungis aukast með tímanum,“ segir í skýrslunni.
Möguleg lausn er þó í sjónmáli þar sem verið er að þróa veiðarfæri úr niðurbrjótanlegum efnum sem gætu komið í stað veiðarfæra úr plasti. „Ef það verður að veruleika gæti það minnkað magnið af veiðarfærum úr plasti sem enda á hafsbotni í framtíðinni,“ segir í skýrslunni.
Fjórfalt meira rusl á hafsbotni við Ísland en í Noregi
Þéttleiki ruslsins var einnig rannsakaður og mælist þéttleiki rusls á hafsbotni við Ísland um fjórfalt meiri en við strendur Noregs.
272 einingar af rusli fundust á 13 af 21 svæði á árunum 2010-2019. Uppreiknaður meðalþéttleiki rusls mældist 872 einingar á ferkílómetra, samanborið við 230 einingar af rusli á ferkílómetra í Noregi og 200 einingar á ferkílómetra við landgrunninn í Evrópu.
Í skýrslunni er þó bent á að í raun er ennþá lítið vitað um dreifingu og áhrif rusls í hafinu í kringum Ísland en rannsóknir hafa hins vegar aukist nýlega. Í því samhengi er bent á niðurstöður rannsókna sem sýna að örplast hefur fundist í vefjasýnum í allt að 50 prósent af krækling meðfram vesturströnd landsins. Þá eru einnig til rannsóknir sem sýna töluvert magn af plasti sem fundist hefur í meltingarvegi íslenskra langreyða og ufsa.
Umhverfisstofnun hefur frá árinu 2018 vaktað rusl á nokkrum ströndum í kringum landið og er allt að 99 prósent af ruslinu plast, oft tengt sjávarútvegi. Er það í takt við niðurstöður skýrslu Hafrannsóknastofnunar, sem og erlendar rannsóknir.
Nýleg rannsókn á „ruslaeyjunni“ í norðurhluta Kyrrahafsins (e. the Great Pacific Garbage Patch) sýnir að á bilinu 75 til 86 prósent plastleifa sem mynda þennan stærsta plastfláka heims má rekja til úrgangs fiskveiðiskipa fimm iðnvæddra sjávarútvegsríkja.
Dýrmæt sýn á ástandið á hafsbotni við Ísland
Hingað til hefur aðeins brotabrot af hafsbotni innan efnahagslögsögu Íslands verið myndað „en ljóst er að myndirnar gefa dýrmæta sýn á ástandið á hafsbotninum,“ að því er fram kemur í skýrslunni.
Skýrsluhöfundar telja hins vegar mikilvægt að fleiri svæði á hafsbotni verði mynduð og kanna þarf betur hvar rusl er að finna í kringum landið. Þá þurfi að reyna að takmarka magn rusls sem endar í hafinu og passa upp á viðkvæm búsvæði svo eyðilegging af mannavöldum verði ekki meiri en raun ber vitni. „Þar til búið er að finna lausnir við þessu mikla vandamáli sem manngert rusl er, þá mun það áfram safnast í miklu magni í hafinu ef ekkert breytist,“ segir í skýrslunni.
„Enn er lítið vitað um örlög og áhrif rusls í hafinu og því mikilvægt að stunda frekari rannsóknir á því hvar rusl safnast saman og hvernig það hefur áhrif á vistkerfi í hafinu ásamt því að skoða samspil veiðiálags og rusls á hafsbotni.“