Airbus þota frá þýska flugfélaginu Germanwings hrapaði í frönsku ölpunum fyrir skömmu, með 148 manns um borð, 142 farþega og sex starfsmenn.
Vélin, sem er af gerðinni A320, var á leið frá Barcelona til Dusseldorf þegar hún hrapaði á milli Barcelonnette og Digne í frönsku ölpunum að sögn flugmálayfirvalda í Frakklandi.
Bæði Airbus og Germanwings hafa sagst vita af slysinu en hafa ekki staðfest nokkuð um málið.
Uppfært 11:16: Francois Hollande, forseti Frakklands, segir ólíklegt að nokkur hafi lifað af flugslysið í frönsku ölpunum. AP fréttastofan hefur þetta eftir honum.
Frönsk yfirvöld á staðnum segja leitar- og björgunarteymi vera á leiðinni á staðinn.
Kort af flugleið þotunnar og slysstað
Uppfært 12:07: Neyðarkall kom frá vélinni 9:47 GMT í morgun. Um svipað leyti hvarf vélin af öllum ratsjám og hún misst hæð mjög hratt áður en hún skall til jarðar í frönsku Ölpunum. Á tíu mínútum fór vélin úr 40.000 feta hæð niður í 6.200 fet. Það er gríðarleg hæðarlækkun á svo skömmum tíma. Aðrir flugmenn á þessu fjölfarna flugsvæði segjast ekki hafa séð reyk frá vélinni er hún hrapaði.
Flughæðarrit vélarinnar áður en hún fórst. Myndrit: AirLive.net
Þessi frétt er í vinnslu.