Að meðaltali hefur verð hlutabréfa hækkað um 8 prósent í Kauphöllinni fyrsta daginn eftir frumútboð þeirra frá árinu 2008. Ýmsar ástæður gætu legið að baki þessarar verðhækkunar, til dæmis óvissa í verðmati, kynningarafsláttur, eða verðmætaaukning. Þetta skrifar Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Frumútboðspopp
Samkvæmt Baldri eru hraðar verðhækkanir á fyrstu dögunum eftir skráningu á hlutabréfamarkaði þekkt fyrirbæri sem kallað er „frumútboðspopp“ (e. IPO pop). Í Bandaríkjunum hækkuðu bréfin að meðaltali um 18 prósent í kjölfar frumútboðs á árunum 1980 til 2020, en á tímum netbólunnar í kringum aldamótin námu hækkanirnar að meðaltali um 60 prósentum. Í fyrra var frumútboðspoppið svo að jafnaði 38 prósent vestanhafs.
Verðhækkanirnar hafa verið nokkuð hóflegri hér á landi frá fjármálahruninu 2008, en á því tímabili hafa 18 frumútboð verið haldin fyrir skráningu í Kauphöllinni. Ef frá eru tekin síðustu tvö útboð hjá fyrirtækjunum Play og Solid Clouds hefur frumútboðspoppið á þessu tímabili numið um átta prósentum að meðaltali. Hæst var það um 33 prósent í TM árið 2013, en þar á eftir koma Íslandsbanki, Arion banki og Hagar með 18-20 prósenta verðhækkun á eftir frumútboði.
Hækkunin ekki sjálfgefin
Hins vegar bendir Baldur einnig á að það sé ekki sjálfgefið að hlutabréf hækki í verði eftir að þau séu skráð á markað og því feli slík fjárfesting ekki í sér gulltryggða ávöxtun. Um 31% af fyrirtækjunum sem fóru á markað í Bandaríkjunum á árunum 1980–2020 lækkuðu í verði á fyrsta degi viðskipta eftir frumútboð. Hér á landi lækkuðu fasteignafélögin Reitir, Eik , Reginn og Heimavellir öll rétt eftir skráningu þeirra, en lækkunin nam 11 prósentum hjá Heimavöllum.
Baldur segir að einhver hækkun á hlutabréfaverði í kjölfar frumútboðs sé eðlileg, svo lengi sem hún sé í samræmi við þá verðmætasköpun sem fylgi sjálfri skráningunni. Mikil óvissa fylgi því að verðleggja fyrirtæki í frumútboði og oft sé tilhneiging að hafa verðmatið í lægri kantinum, þar sem mikilvægt sé að laða fjárfestana að. Hins vegar segir hann að eldri hluthafar geti setið eftir með sárt ennið ef hækkunin er of mikil og sé því mikilvægt að finna ákveðið jafnvægi í verðmynduninni.
Hægt er að lesa grein Baldurs í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.