Margrét Erla Maack, hefur verið ráðin einn umsjónarmanna Íslands í dag. Frá þessu er greint á Vísi.is. Þar mun hún starfa með nýráðnum ritstjóra þáttarins, Andra Ólafssyni, og tveimur nýjum umsjónarmönnum sem ekki hefur verið greint frá hverjir eru.
Margrét hefur skrifað Kjaftæðispistla á Kjarnann um nokkurt skeið og mun halda þeim skrifum áfram samhliða nýju starfi. Hún starfaði áður við Kastljós hjá RÚV og var dómari og spurningahöfundur í Gettu betur. Margrét er einnig einn stofnenda Sirkus Íslands.
Í frétt Vísis er haft eftir Andra að enn frekari breytingar séu í vændum á ritstjórn, efnistökum og áherslum Íslands í dag. Hið nýja Ísland í dag mun líta dagsins ljós 31. ágúst, eða eftir slétta viku.
Kjarninn greindi nýverið frá því að Ísland í dag yrði stokkað upp í annað sinn á skömmum tíma. Í byrjun apríl síðastliðins var tilkynnt um miklar breytingar á þættinum. Í þeim fólst meðal annars að þættirnir yrðu að að jafnaði lengri en áður, eða um 40 mínútur að lengd, og þeir gerðir í meiri samvinnu við fréttastofu 365. Auk þess yrðu sérstakir þættir um stjórnmál, efnahagsmál og viðskiptalíf undir hatti Íslands í dag. Þannig átti þátturinn alltaf að fjalla um málefni líðandi stundar og tengjast betur þjóðmálaumræðunni en hann hafði gert undanfarin ár.
Áhorf á hið nýja Ísland í dag hefur ekki staðið undir væntingum. Í lok febrúar var meðaláhorf á þáttinn yfir 16 prósent og viku áður en breytingar á honum voru innleiddar horfðu 14,1 prósent á hann. Samkvæmt mælingum Gallup horfðu tólf prósent á Ísland í dag fyrstu vikuna eftir breytingar og 8,8 prósent vikuna eftir það. Í síðustu viku júnímánaðar var áhorfið sjö prósent. Á meðal þeirra sem hverfa á braut er Heiða Kristín Helgadóttir, sem stýrði þjóðmálaþættinum Umræðunni, en samningur hennar við 365 miðla rann út í lok júní.