Vísitalan The Stoxx Europe 600 lækkaði um 1,8 prósent í þessari viku, sem er mesta lækkun það sem af er ári. Mesta lækkunin var í Grikklandi og nágrannaríkjum, en nú er raunveruleg hætta talin vera á því að Grikkland muni ekki geta staðið við skuldbindingar sínar í lok mánaðarins og verða gjaldþrota, í þeim skilningi.
Samkvæmt fréttum Reuters þarf gríska ríkið að kafa djúpt í alla vasa ríkisins til þess að geta staðið við skuldbindingar upp á tvo milljarða evra um mánaðarmótin, jafnvirði tæplega 300 milljarða króna, gagnvart sínum eigin þegnum og lánadrottnum.
Wall Street Journal segir mikinn titring á fjármála- og hlutabréfamörkuðum, á það við um bæði Evrópu og Bandaríkin. Fjárfestar séu að búa sig undir að Grikkir lendi í vandræðum, og að bakslag komi í efnahagsbatann í Evrópu.
Eins og greint var frá fyrr í dag,, meðal annars í frétt Kjarnans, er vandi Grikkja mál málanna á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington. Christine Lagarde, framkvæmdastjóri sjóðsins, lét hafa eftir sér í þriðjudag að ekki kæmi til greina að gefa neitt eftir þegar kæmi að skuldum Grikkja við sjóðinn, enda myndi það aðeins gera stöðunni erfiðari.