Gengið á verðbréfamörkuðum í Grikklandi hefur lækkað skarpt eftir að viðræðum milli Grikkja og fulltrúa Evrópusambandsins (ESB) var slitið í morgun. ATG vísitalan gríska lækkaði um 5,9 prósent á föstudaginn, en tók síðan aðra dýfu eftir að fréttirnar spurðust út, eða um 5,3 prósent. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Einkum er deilt um niðurskurðaraðgerðir gríska ríkisins, upp á ríflega tvo milljarða evra, eða sem nemur 300 milljörðum króna. Grísk stjórnvöld hafa lagt upp með falla frá þeim aðgerðum, en þær voru hluti af lánasamningum Grikkja við ESB, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og kröfuhafa. Á meðan þetta er óleyst, þá mun Grikkland ekki fá lífsnauðsynlega lánafyrirgreiðslu.
Sérstaklega eru það grískir bankar sem eru í vandræðum þar sem fé streymir frá Grikklandi, á meðan það er óleyst hvort samningar náist við kröfuhafa landsins.
Forsætisráðherrann, Alexis Tsipras, segir málið snúast um lýðræðislegan rétt Grikkja til þess að stjórna eigin fjárhag og ríkisfjármálum. Flokkur hans, Syriza, hafði það sem aðalstefnumál í kosningum að endursemja við kröfuhafa og draga til baka niðurskurðaraðgerðir hjá hinu opinbera. Þær hafa ekki gengið eftir, og hafa áform um að draga til baka áður ákveðnar aðgerðir engum árangri skilað.
My statement on the negotiations in @EFSYNTAKTON newspaper: This is about #democracy. http://t.co/589HQhqHdo #Greece pic.twitter.com/dO33ONrsZV
— Alexis Tsipras (@tsipras_eu) June 15, 2015