Virði hlutabréfa í Eimskip hafa hækkað um rúmlega 220 prósent á einu ári. Þann 20. ágúst í fyrra var markaðsvirði Eimskips um 24 milljarðar króna. Við lok viðskipta í gær var það komið upp í um 77 milljarða króna. Það hefur því hækkað um 53 milljarða króna á einu ári.
Bréf félagsins hækkuðu umtalsvert í gær, um tíma yfir tíu prósent, eftir að félagið birti hálfsársuppgjör sitt á fimmtudag sem þótti jákvætt. Tekjur félagsins á fyrri hluta ársins 2021 voru 21,4 prósent meiri en þær voru á sama tímabili í fyrra og fjármagnskostnaður Eimskips hefur lækkað um 35,4 prósent milli ára, sem má rekja til virkrar skuldastýringar og hríðlækkandi vaxta á lánum vegna ákvarðana seðlabanka heimsins um að örva efnahagskerfi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. EBITDA-hagnaður, hagnaður fyrir skatta, fjármagnskostnað og afskriftir, jókst um heil 81,6 prósent milli ára og hagnaður félagsins var 16,2 milljónir evra, um 2,4 milljarðar króna á fyrri hluta ársins 2021.
Um 43 prósent af tekjum Eimskips koma frá Íslandi sem er sama hlutfall og var á fyrri hluta árs í fyrra.
Sömdu um samkeppnislaga brot og verðið rauk upp
Þann 16. júní síðastliðinn var greint frá því að Eimskip hefði gert sátt við Samkeppniseftirlitið um greiðslu 1,5 milljarða króna stjórnvaldssektar vegna alvarlegra brota gegn samkeppnislögum og EES-samningum sem framin voru í samráði við Samskip, aðallega á árunum 2008 til 2013.
Sama dag og tilkynnt var um sáttina uppfærði Eimskip afkomuspá sína. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands á þeim tíma sagði að samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir apríl og maí, ásamt áætlun fyrir júní, liti út fyrir að „EBITDA af rekstri á öðrum ársfjórðungi 2021 verði umtalsvert betri en afkoma sama ársfjórðungs síðasta árs og jafnframt betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hins vegar hefur nýgerð sátt við Samkeppniseftirlitið sem tilkynnt var um fyrr í dag neikvæð áhrif á afkomuna.“
Í sáttinni við Samkeppniseftirlitið gekkst Eimskip við því að hafa líka viðhaft ólögmætt samráð við Samskip áður en stórtækara samráð á milli fyrirtækjanna tveggja hófst sumarið 2008.
Að auki viðurkenndi Eimskip að hafa brotið gegn samkeppnislögum með því að hafa ekki veitt nauðsynlegar eða réttar upplýsingar eða afhent gögn í þágu rannsóknar málsins, en félagið hefur á fyrri stigum rannsóknar málsins neitað því að hafa gerst brotlegt við lög.
Frá því að tilkynnt var um sáttargerðina fyrir rétt um tveimur mánuðum síðan hafa hlutabréf í Eimskip hækkað um næstum 55 prósent, eða 27,4 milljarða króna.
Samherji Holding langstærsti eigandinn
Langstærsti einstaki eigandi Eimskips er Samherji Holding ehf., sem heldur á 34,22 prósent eignarhlut. Sá hlutur er nú metinn á 26,6 milljarða króna. Félagið keypti upphaflega 25,3 prósent hlut í Eimskip á ellefu milljarða króna fyrir tæpum þremur árum síðan. Aðrir stórir eigendur eru aðallega íslenskir lífeyrissjóðir.
Baldvin Þorsteinsson, sem stýrir erlendri starfsemi Samherja, er stjórnarformaður Eimskips. Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi stjórnarformannsins og tveggja helstu eigenda Samherja Holding, er forstjóri félagsins.
Samherji Holding er sá hluti samstæðu Samherja sem heldur utan um erlendan hluta hennar. Félagið er á meðal þeirra sem eru til rannsóknar hjá embættum héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra um þessar mundir vegna gruns um mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti. Þær rannsóknir hófust í kjölfar þess að Samherjamálið svokallaða var opinberað í nóvember 2019.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Helga S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona hans, og Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, eru að uppistöðu stærstu eigendur Samherja Holding.
Félagið hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árin 2019 né 2020. Það skilaði síðast ársreikningi fyrir árið 2018 í lok ágústmánaðar 2019 og því hefur Samherji Holding ekki skilað inn ársreikningi líkt og lög gera ráð fyrir síðan að Samherjamálið kom upp.