Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, sem mælir gengi bréfa þeirra tíu félaga á aðalmarkaði sem hafa mestan seljanleika, hefur lækkað um 12,2 prósent frá því í byrjun nóvember í fyrra. Hún lækkaði alls um 5,3 prósent í nýliðnum febrúar sem er mesta lækkun sem mælst hefur á vísitölunni síðan í mars 2020, þegar heimsfaraldur kórónuveiru skall á af fullum þunga. Vísitalan lækkaði líka, alls um 4,7 prósent, í janúar 2022.
Heildarmarkaðsvirði allra skráðra félaga í Kauphöllinni, jafnt þeirra sem skráð eru á aðalmarkað og First North markaðinn, var 2.420 milljarðar króna í lok febrúar en var 2.527 milljarðar króna í byrjun nóvember í fyrra. Því hafa 107 milljarðar króna af markaðsvirði horfið á fjórum mánuðum.
Þetta má lesa út úr viðskiptayfirlitum Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina.
Miklar hækkanir síðustu ár
Mikill gangur hefur verið á hlutabréfamarkaði frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Þannig hækkuðu bréf í öllum félögum sem skráð eru á aðalmarkað á árinu 2021. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um þriðjung á síðasta ári, samanborið við 20,5 prósent á árinu 2020.
Mest hækkuðu þau hjá Arion banka, alls um 100,5 prósent, en minnst hjá Marel, stærsta skráða félagi landsins og því eina sem er í umfangsmiklum alþjóðlegum vaxtafasa, en bréf þess hækkuðu um 10,9 prósent. Bréf Marel eru líka skráð á markaði í Hollandi.
Bréf í Arion banka hafa lækkað um tíu prósent frá því í lok október í fyrra en bréf í Marel hafa lækkað um 20 prósent á sama tíma.
Ýmis félög hafa á sama tíma hækkað í verði. Bréf í Icelandair Group hafa til að mynda hækkað um 11,4 prósent frá því í byrjun nóvember í fyrra og bréf í sjávarútvegsrisanum Brim hafa hækkað um sex prósent.
Þróunin er í takti við spár og það sem gerst hefur alþjóðlega, en miklar vaxtalækkanir og sértækar aðgerðir seðlabanka víðs vegar um heiminn við upphaf faraldurs, sem miðuðu að því að dæla ódýru fjármagni inn í fjármálakerfi heimsins, ýttu hlutabréfaverði skarpt upp.
Síðustu mánuði hafa vextir hins vegar að hækka og hérlendis eru þeir búnir að fara úr 0,75 í 2,75 prósent frá því í maí í fyrra. Þetta er gert til að takast á við aukna verðbólgu, en á Íslandi er hún nú 6,2 prósent og hefur ekki mælst hærri í tæp tíu ár.