Það er alkunna að Danir eru miklir áhugamenn um mat. Borða mikið, tala mikið um mat, eyða miklum tíma í að skoða mat í búðum og dreymir jafnvel mat. Þessi mikli mataráhugi hefur líka sett mark sitt á þjóðina, margir eru alltof þungir og þrátt fyrir hverja hollustuherferðina á fætur annarri á undanförnum árum, og fögur áramótaheit breytir það litlu: baðvigtin sýnir það og sannar.
Það kemur þess vegna ekki á óvart að þessi mikla matarþjóð skuli hafa áhuga fyrir að lesa um mat og skoða uppskriftir. Dönsku dagblöðin eru öll með sérstakar matarsíður, sum þeirra jafvel með matseðil vikunnar, þar sem línurnar eru lagðar um hvað „familien Danmark“ geti haft á borðum og þurfi ekki að láta hendingu ráða hvað fer í pottana. Vikublöðin, Famile Journal, Hjemmet, Alt for Damerne og öll hin birta fjöldann allan af uppskriftum í hverju tölublaði.
Aragrúi matreiðslubóka á hverju ári
Árlega koma út hér í Danmörku um það bil 80 nýjar matreiðslubækur (fyrir utan endurútgáfur), talan fer hækkandi ár frá ári. Fyrir nokkrum áratugum létu flestir sér nægja að eiga tvær til þrjár matreiðslubækur, oft og tíðum þverhandarþykka doðranta sem innihéldu, auk uppskriftanna, margvíslegar upplýsingar um meðferð og geymslu matvæla o.s.frv. (Matur og drykkur fröken Helgu Sigurðardóttur er í þessum anda).
Þekktust danskra matreiðslubóka er líklega Frøken Jensens Kogebog, hún kom fyrst kom út árið 1901 og hefur verið endurútgefin að minnsta kosti 30 sinnum og selst í hundruðum þúsunda eintaka og selst enn þann dag í dag jafnt og þétt. Þessi metsölubók á fátt sameiginlegt með hinum nýtískulegu matreiðslubókum nútímans, þar sem mikil áhersla er lögð á ljósmyndir til skýringar og vandaðan glanspappír. Í þessum bókum er líka hráefnið mun fjölbreyttara en hjá frøken Jensen, enda tímarnir breyttir. Lesendur fá vatn í munninn við það eitt að skoða myndirnar og uppskriftirnar og hugsa með sér: þetta prófa ég næst!
Langfæstir elda upp úr matreiðslubókunum
En, þetta næst kemur bara aldrei, eða mjög sjaldan. Nýleg rannsókn sérfræðings hjá Konunglega bókasafninu leiddi nefnilega í ljós það sem marga reyndar grunaði. Fólk kaupir nýju bækurnar og skoðar þær sér til skemmtunar en notar þær svo aldrei. „Manni fallast bara hendur þegar maður sér myndirnar og allt sem þarf að kaupa til að elda þetta fína í bókunum“ sagði eldhúsvanur karl í viðtali við áðurnefndan sérfræðing.
Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að Danir hafi mjög gaman af að lesa um allt þetta nýja í matargerðinni og skoða myndirnar en þegar kemur að sjálfri matreiðslunni þá er það medisterpylsa, steikt rauðspretta og síld, hakkebøf eða svínakótilettur sem enda á diskinum með kartöflum og rauðkáli.