Endurnýjanleg orka er ekki óendanleg og eftirspurn eftir henni er mikil og vaxandi. Um hana er bitist á markaði og eðlilega vilja orkufyrirtæki selja hana hæstbjóðanda. Því er alls ekki víst, miðað við það umhverfi sem við búum við í dag, að orka úr nýjum virkjunum fari til orkuskipta sem eru nauðsynleg ef loftlagsmarkið íslenskra stjórnvalda sem og alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum eiga að nást.
En til eru leiðir og til eru möguleikar vilji stjórnvöld raunverulega setja orkuskiptin í forgang.
Þetta var meðal þess sem Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri fjallaði um á kynningarfundi í Grósku í gær þar sem splunkunýtt orkuskiptalíkan Orkustofnunar var kynnt. Líkanið er gagnvirkt verkfæri til að móta áætlanagerð út frá stillanlegum forsendum sem geta rímað við markmið, stefnu og skuldbindingar Íslands í orku- og loftslagsmálum. Það er ekki nóg að setja fram spár, segir orkumálastjóri, við verðum líka að skilja hvað það þýðir í innleiðingu á aðgerðum.
„Þótt framtíðin sé björt þá er mikil óvissa,“ sagði Halla Hrund. „Það er eitt sem er svo spennandi við líkanið að það fangar að ákveðnu leyti óvissuna. Með því að breyta forsendum er hægt að sjá þýðingu fyrir ólíkar sviðsmyndir.“
Hún sagði að vissulega væri margt spennandi að gerast í tækniþróun og öðru „en ef að það er eitthvað sem við vitum alveg örugglega þá er það að hlutirnir verða ekki nákvæmlega eins og við höldum að þeir verði eftir tíu eða tuttugu ár.
Beðið eftir póstbílnum
Öll ríki heimsins eru að fjárfesta í nýjum lausnum. En það er ómögulegt að sjá fyrir hvernig hlutirnir koma til með að þróast.
„Þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig heimurinn verði nákvæmlega, hversu mikið magn af hinu og þessu þurfi árið 2040 eða 2050 þá finnst mér áhugavert að hugsa út frá manni sjálfum, hvað maður var að gera fyrir tuttugu árum síðan,“ sagði hún og tók dæmisögu af sjálfri sér: „Fyrir tuttugu árum síðan var ég að bíða eftir póstbílnum. Á bóndabænum sem ég var á snerist umræðan öll um það hvernig hægt væri að bæta póstsamgöngur. Og maður fékk að hringja einu sinni í viku vegna þess að það var svo dýrt að hringja.“
Ekki er svo langt síðan að þetta var veruleikinn en síðan hefur orðið bylting í fjarskiptageiranum. „Og ég held að við megum leyfa okkur að hugsa þannig að það verði líka bylting þegar kemur að rafhlöðutækni – byltingar á ólíkum sviðum sem munu hjálpa okkur að ná markmiðum með öðrum hætti heldur en við akkúrat sjáum fyrir okkur í dag.“
Því næst sneri Halla Hrund sér að umræðu um orkuþörf til orkuskipta og annarra verkefna. Til þess að ræða slíkt þurfi almenningur að átta sig á því hvernig markaðurinn með raforku virkar í dag. „Við hjá Orkustofnun fáum oft spurninguna: Eru stjórnvöld að fara í þessa virkjun fyrir þetta eða hitt? Er verið að virkja fyrir orkuskiptin eða fyrir eitthvað ákveðið verkefni?“
Hún segir að það hafi áður fyrr vissulega verið þannig að stjórnvöld ákváðu í hvað orkan fór, tiltekna verksmiðju eða aðra notkun. „Í dag er raunveruleikinn flóknari.“
Rammaáætlun er komin til sögunnar. Inn til mats fyrir hana senda orkufyrirtæki ákveðna virkjunarkosti og síðan er það Alþingis að afgreiða hana, ákveða hvað fari í nýtingarflokk og hvað ekki. Síðan sækja orkufyrirtækin um virkjunarleyfi fyrir ákveðna kosti, þau framkvæma einnig og gera samninga við kaupendur orkunnar. „Þannig að þó að stjórnvöld séu með markmið, loftslagsmarkmiðin til dæmis, þá eru það fyrirtækin sem í raun og veru ákveða í hvað orkan fer.“
Orkan er endurnýjanleg en ekki óendanleg en samkeppnin um hana er mikil og fer vaxandi á tímum orkuskorts og loftslagsbreytinga. „Græna orkan er olía okkar tíma og mun halda áfram að vaxa í virði eftir því sem þjóðir heimsins sækjast eftir því að fara í orkuskipti,“ sagði Halla Hrund. „Þannig að það eru margir kaupendur og fyrir fyrirtæki sem starfa á markaði er ekki sjálfgefið endilega að orkan fari í orkuskiptaverkefni ef þau eru minna samkeppnishæf heldur en aðrir kostir. Það eru margar leiðir til að nýta orkuna og í sjálfu sér er ein af spurningunum: Hver býður best?“
Ákveðinn áhættuþáttur
Halla Hrund sagði Orkustofnun hafa sett fram ákveðna sviðsmynd sem gott væri að velta fyrir sér. Í rammaáætlun séu virkjunarkostir í nýtingarflokki með ákveðið mikla orku og gera megi ráð fyrir því að einhverjir þeirra verði að veruleika á næstu árum. „Ef að það magn er bundið í langtímaorkusamninga, fram yfir loftslagsmarkmið Íslands, þá er það ákveðinn áhættuþáttur í því að það verði til orka fyrir orkuskipti.“
Hún lagði ríka áherslu á að ekki væri verið að gera lítið úr því að önnur orkunotkun geti stuðlað að miklum verðmætum, nýsköpun og öðru fyrir land og þjóð. „Við erum að draga það hins vegar fram að það er ekki orkunotkun sem styður við loftslagsmarkmiðin.“
Markmið Íslands í loftslagsmálum eru þau að ná kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. „Það hefur verið mikið rætt um það að orkuskiptin eigi að vera í forgangi þegar kemur að orkunýtingu,“ sagði orkumálastjóri og sagði umræðuna stundum á þennan veg: Er ekki bara nóg til? Ef það er ekki nóg til fyrir orkuskiptin getum við þá ekki bara framleitt meira?
„Það er það áhugaverða við endurnýjanlega orkugjafa að við erum að vinna innan þolmarka náttúru,“ sagði hún. „Þetta eru verðmæt en takmörkuð gæði. Náttúra vex líka í virði á tímum loftslagsbreytinga. Þannig að við þurfum að hafa jafnvægi í huga, sérstaklega vegna þess að þótt við séum að taka ákvarðanir núna þá erum við að taka ákvarðanir um innviði og annað fyrir framtíðarkynslóðir.“
Hún sagði Orkustofnun, sem gegnir lögum samkvæmt ráðgjafarhlutverki, vilja að stjórnvöld skilji að veruleikinn sé flóknari en áður. „Og ef að stjórnvöld vilja setja orkuskipti raunverulega í forgang þá þarf að hugsa um ólíka hvata eða leiðir.“
Því næst varpaði hún upp á skjá það sem hún kallaði „matseðil möguleika“.
Á honum eru sjö ólíkar leiðir sem stjórnvöld gætu skoðað „ef það er raunverulegur vilji til að setja loftslagsmarkmiðin hærra heldur en önnur markmið“.
Á matseðlinum eru mögulegar aðgerðir sem má útfæra og líklegar eru til að skapa hvata svo orka rati í orkuskiptin og styðja þannig við loftlagsmarkmið stjórnvalda. Tillögurnar eru allt frá því að gera rafeldsneyti samkeppnishæfara við aðra valkosti á markaði með ívilnunum og í að skilyrða hluta virkjunarleyfa í þágu orkuskiptaverkefna.
Dæmin sjö eru þessi:
- Forgangsröðun leyfisveitinga innan stjórnsýslunnar
- Eigendastefna opinberra fyrirtækja í þágu loftslagsmála
- Útboð á framleiðslugetu í þágu loftslagsmarkmiða
- Hlutfall af framleiðslu skilyrt í leyfum fyrir orkuskipti
- Ívilnanir sem auka samkeppnishæfni rafeldsneytis
- Tryggja langtímasamninga fyrir orkuskiptaverkefni
- Styrkir til innviðauppbyggingar vegna orkuskipta
„Þetta eru alls konar tillögur sem við segjum að sé efni inn í umræðuna, efni fyrir stjórnmálamenn að skoða,“ sagði Halla Hrund. Orkustofnun er að hennar sögn sannarlega fús til að veita meiri upplýsingar um ólíkar leiðir og taka við tillögum að fleiri leiðum „því við viljum safna fleiri jólakúlum á þetta tré“.
En af hverju erum við að setja okkur loftslagsmarkmið og fara í orkuskipti?
Með Parísarsáttmálanum höfum við líkt og flestar þjóðir heims skuldbundið okkur til að gera hvað við getum til að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingar - helst undir 1,5 gráðum.
„Við erum núna komin með einnar gráðu í hlýnun og nú þegar eru ríki farin að takast á við breytingar á veðurfari,“ sagði Halla Hrund.
En skipta ein eða tvær gráður til eða frá einhverju máli? spurði hún. Til að ná betur að skilja hvað um ræðir benti hún á samlíkinguna við líkamshita okkar, hver munur á líðan okkar er þegar við erum „hitalaus“ (37 stig) eða með 38 stiga hita. „Það eru mikil áhrif sem koma með tiltölulega lítilli breytingu á meðalhita [á jörðinni]. Það hefur það í för með sér að við sjáum stórar breytingar á veðurfari.“
Það er ekki nema með samtakamætti stórra ríkja sem eru að losa mest sem við raunverulega getum náð þeim árangri sem við þurfum „en á sama tíma þurfa öll ríki heimsins að vinna sína heimavinnu“.
Stuðningur við loftslagsvegferð
Orkustofnun hefur undanfarið unnið að því að breyta áherslum sínum til að geta stutt betur við loftlagsvegferð stjórnvalda, líkt og Halla Hrund orðaði það. Í þessu augnamiði hefur verið sett á fót nýtt svið innan stofnunarinnar, svið loftslagsbreytinga, orkuskipta og nýsköpunar.
Orkuskiptalíkanið sem kynnt var í gær er fyrsta skref stofnunarinnar í að samvinna orkuspár sem hafa áður verið gefnar út í sitthvoru lagi í formi skýrslna. Orkuskiptalíkanið tengir eldsneytisspá og raforkuþörf vegna orkuskipta. Fyrri spár byggðu á eftirspurn eftir olíu og aðallega samfélagsþróun og orkunýtni sem höfðu áhrif á niðurstöður spánna. „Nú eru nýir orkugjafar að ryðja sér til rúms með tilheyrandi óvissu. Það er flókið að áætla hver skiptingin verður milli rafeldsneytis og beinnar nýtingar raforku ásamt innleiðingarhraða nýrrar tækni.“