Þingflokkur Pírata hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að dýraeftirlit verði fært frá Matvælastofnun til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Valgerður Árnadóttir, varaþingmaður Pírata. Samhliða tilfærslunni verði hugað sérstaklega að aðgerðum til að tryggja dýravelferð. Píratar leggja til að embætti yfirdýralæknis verði eflt þannig að það geti unnið sjálfstætt að eftirliti, fræðslu, gagnaöflun og faglegri stjórnsýslu varðandi dýravelferð.
Einnig er lagt til að stjórnsýsla dýravelferðar verði óháð stjórnsýslu matvælaöryggis og að valdheimildir til að sinna velferð dýra og til að grípa inn í þar sem er brýn nauðsyn verði auknar. Að endingu er lagt til að úrræði til að bjarga dýrum úr slæmum aðstæðum verði tryggð með fjármagni til að halda úti dýraathvörfum með aðkomu hlutaðeigandi sveitarfélaga. „Matvælaráðherra hafi í framangreindu skyni samráð við helstu hagsmunasamtök og fagaðila í greininni og leggi eigi síðar en á 154. löggjafarþingi fyrir Alþingi lagafrumvörp til að stuðla að nauðsynlegum breytingum á sviði dýravelferðar í samræmi við ályktun þessa.“
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er bent á að undanfarið hafi komið upp mörg dæmi sem sýni að ekki er hugað nægilega að velferð dýra sem haldin eru eða veidd hér á landi. Þar megi einna helst nefna erfið mál sem hafa komið upp við blóðmerahald og hvalveiðar þar sem gögn sýni að dýrin hafa þjáðst að óþörfu. „Það er ljóst að eftirliti er verulega ábótavant og valdheimildir til að grípa inn í ekki nægjanlega sterkar. Eftirlit og úrskurðarvald eru á sömu hendi í málaflokknum sem dregur úr nauðsynlegu aðhaldi.“
Ennfremur er bent á að hagsmunir í matvælamálum og dýravernd fari ekki alltaf saman og „skapast hættulegt ójafnvægi þegar annar málaflokkurinn er látinn vega þyngra en hinn. Með tillögu þessari er lagt til að eftirlit með velferð dýra verði fært til sjálfstæðs dýravelferðarsviðs sem getur sinnt yfirumsjón og samræmingu á meðan Matvælastofnun eða annar aðili sér um eftirlit og gagnasöfnun. Nauðsynlegt er að stórefla hlut dýraverndar í stjórnsýslunni. Jafnframt þarf að auka valdheimildir stjórnsýsluaðila til að taka á erfiðum dýravanrækslumálum án tafar. Rétt er við undirbúning tilfærslu dýraeftirlits að athuga hvort færa þurfi embætti yfirdýralæknis að fullu til annars ráðuneytis í þessu skyni og tryggja að embættinu sé skylt og kleift að sinna öllum dýravelferðarmálum jafnt, hvort sem um er að ræða villt dýr, húsdýr eða gæludýr“.
Stofnun sett saman úr ýmsu
Matvælastofnun hóf störf 1. janúar 2008 þegar Landbúnaðarstofnun, matvælasvið Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir einum hatti. Stofnunin starfar undir yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sem sett hefur reglugerð nr. 1/2008 um skipulag og starfsemi Matvælastofnunar. Aðalskrifstofa er á Selfossi en markaðsstofa í Hafnarfirði. Stofnunin rekur einnig umdæmiskrifstofur víðs vegar um landið, auk landamærastöðva vegna innflutnings sjávarafurða frá ríkjum utan EES.
Með stöðugum flutningi verkefna til stofnunarinnar hefur umfang starfseminnar aukist jafnt og þétt.
Tímalína
2006: Landbúnaðarstofnun
Sameining Embættis yfirdýralæknis, Aðfangaeftirlits, Veiðimálastjóra, Yfirkjötmats og annarra verkefna
2008: Matvælastofnun
Samruni Landbúnaðarstofnunar og matvælasviða Fiskistofu og Umhverfisstofnunar
2010: Eftirlit með búfjárafurðum
Eftirlit með kjötvinnslum og mjólkurbúum fært frá sveitarfélögum til MAST
2011: Eftirlit með fiskvinnslum
Matvælastofnun tók yfir verkefni Skoðunarstofa í sjávarútvegi
2013: Eftirlit með dýravelferð
Stjórnsýsla og eftirlit flutt frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar
2014: Búfjáreftirlit
Fært frá sveitarfélögum til MAST samhliða endurskipulagi eftirlits með dýravelferð
2015: Eftirlit með fiskeldi
Fært frá Fiskistofu til MAST auk verkefna sem MAST vinnur fyrir Umhverfisstofnun
2016: Búnaðarstofa
Stjórnsýsluverkefni flytjast frá BÍ til MAST
2018: Lífræn ræktun
Stjórnsýsla og eftirlit færð frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til MAST
2020: Brotthvarf Búnaðarstofu
Búnaðarstofa flutt frá MAST til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins