Launa- og lífeyrissjóðsgreiðslur til Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar, hækkuðu um 18,5 prósent á síðasta ári. Miða greiðslur til hans á mánuði voru 5,6 milljónir króna á árinu 2021 en 4,7 milljónir króna árið 2020. Laun Gunnþórs og mótframlag í lífeyrissjóð hækkuðu um 880 þúsund krónur á mánuði að meðaltali í fyrra.
Þetta kemur fram í ársreikningi Síldarvinnslunnar sem birtur var í gær.
Laun hans eru við meðaltal launa forstjóra skráðra félaga, sem voru tæplega 5,7 milljónir króna á mánuði að teknu tilliti til launahækkunar Gunnþórs.
Rekstur Síldarvinnslunnar gekk vel í fyrra. Hún hagnaðist um 11,1 milljarða króna, ef miðað er við meðalgengi Bandaríkjadals en félagið gerir upp í þeirri mynt. Af þeirri upphæð féllu um þrír milljarðar króna til vegna söluhagnaðar sem myndaðist þegar SVN eignafélag, stærsti eigandi tryggingafélagsins Sjóvár, var afhentur fyrri hluthöfum Síldarvinnslunnar í fyrravor.
Félagið greiddi 531 milljónir króna í veiðigjöld í fyrra og tæplega 2,1 milljarð króna í tekjuskatt. Því námu samanlagðar greiðslur vegna veiðigjalds og tekjuskatts í ríkissjóð um 2,6 milljörðum króna, eða 76 prósent af þeirri upphæð sem til stendur að greiða hluthöfum í arð og 23 prósent af hagnaði Síldarvinnslunnar vegna síðasta árs.
Miðað við nýjasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 9,41 prósent hans. Þá keypti Síldarvinnslan útgerðarfyrirtækið Berg Huginn á árinu 2020 en það heldur á 1,03 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Hafa hagnast um 1,6 milljarð króna á því að kaupa hlut
Síldarvinnslan var skráð á markað í maí í fyrra. Í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar kom fram að Gunnþór, Axel Ísaksson og Jón Már Jónsson, sem allir eiga sæti í framkvæmdastjórn Síldarvinnslunnar væru eigendur félagsins Hraunlóns. Þeir keyptu félagið í lok árs 2020 á 640 milljónir króna en Hraunlón átti þá 27,5 milljónir hluta í Síldarvinnslunni.
Þegar Síldarvinnslan var skráð á markað hafði virði hlutarins hækkað upp í 1.595 milljónir króna á fjórum mánuðum, eða um 955 milljónir króna.
Í hlutafjárútboði sem fór fram í aðdraganda skráningar Síldarvinnslunnar á markað ákvað Hraunlón að selja 37 prósent af bréfum sínum. Fyrir það fékk félagið 608 milljónir króna. Því má segja, þegar kaupverðið á heildarhlutnum í lok árs 2020 er dregið frá því sem fékkst fyrir það selt var í hlutafjárútboðinu í fyrravor, að eigendur Hraunlóns hafi greitt 32 milljónir króna fyrir þann hlut sem þeir halda á í dag.
Það er sem stendur um eitt prósent hlutur í Síldarvinnslunni sem metinn er á um 1,6 milljarð króna, en markaðsvirði félagsins hefur hækkað um 41 prósent frá skráningu.
Þar munar mestu um þá aukningu sem varð á virði félagsins eftir að tilkynnt var um stóraukinn loðnukvóta í fyrrahaust, en Síldarvinnslan og tengd félög fengu næst mest allra útgerða af honum, eða 18,49 prósent. Um var að ræða stærstu úthlutun í loðnu í næstum tvo áratugi en engum loðnukvóta hafði verið úthlutað í tvö ár á undan.
Virðið tífaldaðist
Hraunlón var áður í jafnri eigu Einars Benediktssonar, fyrrverandi forstjóra Olís, og Gísla Baldurs Garðarssonar lögmanns. Samherji fjárfesti í Olís árið 2012 þegar þeir tveir áttu félagið að fullu og árið 2017 voru þeir að öllu leyti keyptir út úr Olís, meðal annars af Samherja. Olís rann síðar saman við smásölurisann Haga.
Hraunlón skilaði ekki ársreikning á árunum 2010 til 2015. Á síðara árinu er komin inn eignarhlutur í öðru félagi, Síldarvinnslunni, sem metinn var á 213 milljónir króna. Í ársreikningi 2020 var hluturinn enn verðmetinn á þá tölu, eða þriðjung af því sem hluturinn var seldur á í lok þess árs.
Þegar það verð sem nýir eigendur fengu fyrir 37 prósent af eigninni í hlutafjárútboðinu í fyrra vor er lagt við markaðsvirði eftirstandandi eitt prósent hlutar í Síldarvinnslunni nú er virði þess hlutar sem Hraunlón átti í lok árs 2020 um 2,2 milljarður króna, eða tíu sinnum meira en bókfært virði hlutarins var fyrir rúmum 14 mánuðum.
Því hafa Gunnþór, Axel og Jón Már hagnast um tæplega 1,6 milljarð króna á því að kaupa Hraunlón í lok árs 2020, nokkrum mánuðum áður en Síldarvinnslan var skráð á markað.
Þorri þess hagnaðar lendir hjá Gunnþóri. Í ársreikningi Síldarvinnslunnar kemur fram að Gunnþór eigi 60 prósent hlut í L1197 ehf. sem á 100 prósent hlut í Hraunlóni. Því er beinn hlutur Gunnþórs í Hraunlóni 940 milljóna króna virði. Auk þess á hann 100.306 hluti í eigin nafni í Síldarvinnslunni, en markaðsvirði þeirra er rúmlega níu milljónir króna.