Steingrímur Erlingsson, vélfræðingur, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Fáfnis Offshore, segist ekki líta svo á að hann sé „stórhuga frumkvöðull“ heldur hafi hann frekar mikinn og einbeittan áhuga á vélum, skipum og útgerð og hafi haft frá blautu barnsbeini. Hann telji sig vera „þokkalegan“ í því sem hann er að gera og njóti þeirra forrétinda að starfa við það sem hann hafi áhuga á.
Hann segist vonast til þess að geta skráð skip Fáfnis Offshore sem íslensk í framtíðinni og jafnvel skrá fyrirtækið á markað. Mikil tækifæri séu fyrir hendi á Norðurslóðum þegar kemur að þjónustu við iðnað sem þar er.
Fáfnir Offshore lét byggja dýrasta skip sem Íslendingar hafa byggt, sem kostaði vel á áttunda milljarð, en fyrirtækið þjónustar meðal annars olíu- og öryggisþjónustu á Norðurslóðum, sinnir meðal annars þjónustu fyrir rússnesk fyrirtæki og norsk. Skipið var sjósett í mars síðastliðnum, og var smíðað í Tyrklandi. Steingrímur segir reksturinn ganga vel, enda sé lítið annað í boði þegar að þessu kemur. Miklar kröfur séu gerðar til fyrirtækja sem þjónusta stór olíufyrirtæki um að reksturinn sé góður og stöðugur.
Þá er Steimgrímur einnig meðal eigenda Biokraft ehf. sem ræsti nýjar vindmyllur í Þykkvabæ 23. september síðastliðinn en samanlagt afl þeirra er 1,2 megavött. Biokraft hefur samið um að selja alla orkuna til ON. Hann hefur mikla trú á orkuframleiðslu með vindmyllum í framtíðinni.
Í ítarlegu viðtali sem Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri fræðslu- og viðskiptaþróunar VÍB, tók, ræðir Steingrímur um fjárfestingar sínar og hugmyndir sem snúa að orkugeiranum og útgerð á Norðurslóðum.
https://vimeo.com/112291792