Þrjú mest lesnu dagblöð landsins, Fréttablaðið, Fréttatíminn og Morgunblaðið, hafa öll tapað töluverðum lestri undanfarin misseri. Meðallestur á Morgunblaðinu er til að mynda tæplega helmingi minni en hann var árið 2006 og Fréttablaðið hefur misst fimmtung lesenda sinna á átta árum. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Capacent, sem mælir lestur íslenskra prentmiðla mánaðarlega.
Risinn í hnignun
Fréttablaðið, sem dreift er frítt á heimili landsins í um 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar, hefur lengi borið höfuð og herðar yfir aðra miðla þegar kemur að lestri. Forskot fríblaðsins er enn mikið en lesturinn hefur hins vegar dalað mjög undanfarin ár.
Í september 2006 var meðallestur á hvert tölublað Fréttablaðsins 68,8 prósent. Þá var upplag blaðsins 103 þúsund eintök og mælingar Capacent náðu yfir aldurshópinn 12-80 ára. Í dag mælir Capacent lestur Íslendinga á aldrinum 18-80 ára. Lestur Fréttablaðsins var minnstur í yngsta aldurshópnum þannig að ef hann yrði dregin frá hefði meðallestur verið enn hærri.
Samkvæmt nýjustu könnun Capacent var meðallestur á hvert blað hins vegar komin niður í 54,5 prósent í september síðastliðnum. Hlutfall þeirra sem lesa Fréttablaðið að jafnaði er því um 21 prósent lægra en það var fyrir átta árum.
Lesturinn hélst nokkuð stöðugur næstu árin þótt örlítið hafi fjarað undan þeirri gríðarsterku stöðu sem dagblaðið hafði. Í apríl 2010 var hann til dæmis enn um 64 prósent. Samkvæmt nýjustu könnun Capacent var meðallestur á hvert blað hins vegar komin niður í 54,5 prósent í september síðastliðnum. Hlutfall þeirra sem lesa Fréttablaðið að jafnaði er því um 21 prósent lægra en það var fyrir átta árum.
Vert er að taka fram að upplag Fréttablaðsins hefur minnkað á þessu tímabili. Það er nú um 90 þúsund eintök.
Fréttatíminn á niðurleið í lestri
Hitt fríblaðið, Fréttatíminn, kemur út einu sinni í viku, á föstudögum. Blaðið kom fyrst út í október 2014 og er dreift frítt í 83 þúsund eintökum á heimii fólks. Þegar Fréttatíminn kom fyrst inn í mælingar Capacent í mars 2011 mældist meðallestur blaðsins 41,75 prósent.
Þorra þess tíma sem liðið hefur frá fyrstu mælingunni hefur blaðið mælst með yfir 40 prósent lestur. Í mars í ár varð breyting þar á þegar lesturinn fór niður í 39,78 prósent. Síðan þá hefur hann fallið skarpt og í september var hann 36,95 prósent. Lesturinn hefur því dregist saman um rúm ellefu prósent frá fyrstu mælingu vorið 2011.
Helmingi færri lesa Moggann
Morgunblaðið er elsta starfandi dagblað landsins. Það kom fyrst út í nóvember 1913 og hefur verið risi á íslenskum dagblaði nánast alla tíð síðan. Þ.e. fyrir utan allra síðustu ár þegar fjarað hefur hratt undan sterkri stöðu blaðsins.
Í maí 2006 var meðallestur á Morgunblaðið 54,3 prósent, samkvæmt mælingum Capacent sem þá mældu lestur Íslendingar á aldrinum 12-80 ára. Í dag mælir Capacent lestur Íslendinga á aldrinum 18-80 ára. Lestur Morgunblaðsins var minnstur í yngsta aldurshópnum þannig að ef hann yrði dregin frá hefði meðallestur verið enn hærri.
Í janúar 2009, tæpum þremur árum síðar, var lesturinn kominn niður í 42,72 prósent og í september síðastliðnum 28,9 prósent. Lesendur Morgunblaðsins voru því tæplega helmingi fleiri fyrir átta árum síðan en þeir eru í dag.
Í janúar 2009, tæpum þremur árum síðar, var lesturinn kominn niður í 42,72 prósent og í september síðastliðnum 28,9 prósent. Lesendur Morgunblaðsins voru því tæplega helmingi fleiri fyrir átta árum síðan en þeir eru í dag.
Þegar lesturinn er skoðaður í yngri lesendahópnum sem mældur er í dag, 18-49 ára, er staðan enn verri. Í janúar 2009 lásu 32,84 prósent í þeim hópi Morgunblaðið. Í september var sú tala komin niður í 20,66 prósent. Ef fram fer sem horfið mun því undir fimmtungur yngri hluta Íslendinga lesa Morgunblaðið innan skamms. Vert er þó að taka fram að Morgunblaðið er áskriftarblað og slík hafa átt mjög undir högg að sækja með tilkomu netmiðla og annarra starænna breytinga á miðlun efnis.
DV (tveir vikulegir útgáfudagar) og Viðskiptablaðið (einn vikulegur útgáfudagur), sem eru bæði áskriftarblöð, mælast bæði með mun minni lestur en stóru blöðin. DV er með um ellefu prósent meðallestur og Viðskiptablaðið rétt rúmlega níu prósent.
Samhliða þessari hröðu hnignun hefur staða prentmiðla á auglýsingamarkaði veikst hratt. Kjarninn fjallaði ítarlega um þá þróun í síðustu viku.