Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar gerði efnahagsmál að umtalsefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Benti hún í upphafi ræðu sinnar að tvær fréttir hefðu birst í morgun, önnur var um kynningu fjármálaáætlunar stjórnvalda og hin um að verðbólgan hefði ekki mælst meiri síðan 2010.
„Horfur í verðlagsþróun hafa því ekki verið sérlega góðar og spár greiningaraðila, þegar maður fer yfir þær, eru heldur ekki bjartsýnar. Síðustu mánuði hefur verðbólgan hækkað umtalsvert og er nú um 6,7 prósent á ársgrundvelli samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar og það með miklum kostnaði, eins og við þekkjum, fyrir almenning sem sér fram á hækkandi greiðslubyrði lána sinna og er nú nóg fyrir samt síðustu vikur, greiðslubyrði sem er þegar mörgum allt of íþyngjandi, ekki síst þegar fasteignaverð hefur hækkað upp úr öllu valdi samhliða þessu,“ sagði hún.
Þorgerður Katrín sagði að slíkar tölur hefðu ekki sést síðan árið 2010. „Greiningardeildir bankanna spá svo áframhaldandi verðbólguhækkun. Þar er gert ráð fyrir hátt í 7 prósent verðbólgu núna næst í júní og verðhækkanir á eldsneyti og á fasteignamarkaði eru bara líklegar til að mála upp enn svartari mynd en stjórnvöld þora að viðurkenna. Það var eftirtektarvert að heyra fjármálaráðherra lýsa verðbólgunni á Íslandi. Hún væri minni en í útlöndum þegar húsnæðisliðurinn væri tekinn út, þessi heimatilbúna bóla okkar Íslendinga sem ýtir verðbólgunni áfram. Það má ekki segja hlutina eins og þeir eru.“
Nefndi hún einnig að gert væri ráð fyrir áframhaldandi skuldasöfnun til ársins 2026, sem ylli miklum áhyggjum, og ríkissjóður yrði áfram með halla árið 2027.
„Vaxtagjöld ríkissjóðs eru nú þegar einn stærsti útgjaldaliðurinn og þeir fjármunir væru að sjálfsögðu betur nýttir í annað en nákvæmlega þetta sem nú blasir við. Við þurfum að átta okkur á því að þessi mynd, þessi óvissa sem við búum við, miklar verðhækkanir, miklu hærri vextir, verðbólga núna í hæstu hæðum í langan tíma, samhliða því að við stöndum frammi fyrir mikilli óvissu sem tengist kjarasamningum haustsins, er eitthvað sem ríkisstjórnin verður að horfast í augu við og taka alvarlega. Mér finnst miður að sjá ekki fram á þá miklu alvöru í fjármálaáætluninni sem við munum ræða á næstunni,“ sagði hún að lokum.