Mikil sóknarfæri fyrir lífskjör landsmanna liggja annars vegar í hertri samkeppni og hins vegar aukinni samtengingu landsins við erlenda markaði. Aftur á móti gæti lítið aðhald gagnvart innlendum fákeppnisfyrirtækjum gæti dregið úr slíkum sóknarfærum. Þetta skrifar Gylfi Magnússon, prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Samkvæmt Gylfa tekst íslenskum útflutningsfyrirtækjum oft nokkuð vel í alþjóðlegri samkeppni og framleiðni þeirra virðist vera ágæt, þótt þau komi frá litlu landi. Hins vegar segir hann að þau fyrirtæki sem einkum sinna innanlandsmarkaði líða illilega fyrir smæð hans hérlendis og að sú smæð skili ekki bara smáum fyrirtækjum, heldur fáum fyrirtækjum á hverjum markaði.
Rík í útlöndum og blönk í eigin landi
Að mati hans leiðir lítill fjöldi fyrirtækja á innanlandsmarkaði til daufari samkeppni, auk þess sem kunningjasamfélagið dragi svo enn tennurnar úr henni. Vegna þess nýtast þau háu laun sem eru greidd hér á landi ekki vel innanlands, þar sem verðlagið er hærra vegna lítillar samkeppni á milli fyrirtækja.
„Hér býr sem sé þjóð sem er moldrík í öðrum löndum en skítblönk í eigin landi, ef maður leyfir sér að ýkja svolítið,“ bætir Gylfi við og segir nánast allt vera dýrt fyrir neytendur hérlendis, fyrir utan þá þjónustu sem framleidd er af hinu opinbera.
Aðhald og tenging við stærri markaði mikilvægt
Þrátt fyrir þessa smæð innlenda markaðarins segir Gylfi að ýmis sóknarfæri séu til staðar fyrir íslenska neytendur, sem felist annars vegar í aukinni samkeppni á innanlandsmarkaði og hins vegar í meiri samtengingu hans við nágrannalönd.
Gylfi segir það vera sérstaklega mikilvægt að spyrna gegn öllum tilraunum fyrirtækja til að veikja og sveigja starfsemi eftirlitsstofnana að þeirra óskum. Slíkar tilraunir komi oft fram hér á landi, en samkvæmt honum eru nánast linnulausar tilraunir hagmunasamtaka til að veikja samkeppnislögin og eftirlit með þeim skýrasta birtingarmynd þess.
Einnig sé opin og gagnsæ umræða um fyrirtækin mikilvæg, þar sem tilraunir til að veikja innlenda samkeppni og eftirlit með henni þoli alla jafna illa dagsljós. Að mati Gylfa skipta fjölmiðlar hér lykilmáli og berjast því fyrirtæki gjarnan fyrir yfirráðum yfir þeim. Hann segir þennan áhuga fyrirtæki á að styrkja fjölmiðla ekki vera góðgerðarstarfsemi, heldur fjárfesting í áhrifum.
Fjölmörg sóknarfæri
Samkvæmt Gylfa er EES-samningurinn önnur mikilvæg vörn gegn fákeppnistilburðum innlendra fyrirtækja, sem gerir verulegar kröfur til innlends regluverks og eftirlitsstofnana. Þar að auki njóti landsmenn góðs af harðri stefnumótun framkvæmdastjórnar ESB í samkeppnismálum, segir hann.
Þá nefnir hann að helsta sóknarfæri íslenskra neytenda liggi í frekari tengingu við EES-markaðinn, en með henni yrði hægt að koma á fót enn virkari samkeppni hérlendis. Með því yrði ekki aðeins stuðlað að lægra vöruverði, heldur aukinni valddreifingu í samfélaginu.
„Sóknarfærin eru fjölmörg, bæði á alþjóðamörkuðum og innanlands,“ segir Gylfi. „Það má hins vegar ekki sýna rentusókn innlendra fákeppnismógúla neina miskunn. Það skilar bara endalausum sjálfsmörkum í lífskjarasókninni.”
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.