Maðurinn sem játað hefur aðild að morði á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov ber merki þess að hafa verið pyntaður og neyddur til að játa á sig morðið. Þetta segir Andrei Babushkin, meðlimur mannréttindaráðs í Rússlandi.
Babushkin heimsótti sakborninginn Zaur Dadayev í fangelsi í gær ásamt blaðamanni. Hann sagði við fjölmiðla í dag að sár væru á líkama Dadayev og að ástæða væri til að halda að hann hefði játað eftir pyntingar. Hann kallaði eftir því að óháðir aðilar yrðu fengnir til þess að rannsaka málið.
Babushkin segir að Dadayev hafi sýnt honum för eftir handjárn og reipi sem hafi verið bundið um fætur hans. Dadayev hafi sagst hafa játað á sig morðið til þess að vini hans, sem var handtekinn á sama tíma, yrði sleppt úr haldi. Hann hafi ætlað að segja sannleikann þegar hann kom fyrir rétt á sunnudag, en ekki fengið að tala.
Stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um ásakanir Babushkin en segja hins vegar að hann hafi brotið lög með því að tjá sig um heimsókn sína í fangelsið. Það gæti flokkast sem tilraun til að hafa áhrif á rannsókn málsins.
Í viðtali við Dadayev sem birtist í dagblaðinu Moskovsky Komsomolets er haft eftir Dadayev að hann hefði verið látinn vera með hauspoka á sér í tvo daga. „Þeir öskruðu stanslaust á mig: Drapstu Nemtsov? Ég sagði nei,“ er haft eftir honum þar. Honum hafi hins vegar verið sagt að ef hann játaði yrði vinur hans látinn laus, og því hafi hann játað. „Ég hugsaði að þeir myndu bjarga honum, og að ég yrði fluttur lifandi til Moskvu.“
Hinn maðurinn sem hefur verið ákærður fyrir morðið, Shagid Gubashev, heldur enn fram sakleysi sínu. Hann segist hafa verið laminn og látinn vera með hauspoka frá því hann var handtekinn í Ingushetia og þar til hann var kominn til Moskvu.
Þrír menn til viðbótar eru í haldi lögreglu grunaðir um aðild að morðinu á Nemtsov, sem var skotinn fjórum sinnum í bakið í Moskvu seint að kvöldi þann 27. febrúar. Yfirvöld í Rússlandi hafa enn ekki gefið út neina ætlaða ástæðu fyrir því að fimmmenningarnir hafi myrt Nemtsov.