Rúmur helmingur strætófarþega sem hafa prófað Klappið, nýtt rafrænt greiðslukerfi Strætó, er óánægður með forritið, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Prósent framkvæmdi fyrir Strætó í á vormánuðum.
Af alls 138 svarendum könnunarinnar sem sögðust hafa prófað nýja greiðslukerfið sögðust rúm 33 prósent mjög óánægð og 20 prósent fremur óánægð. Um 20 prósent sögðu hvorki óánægð né ánægð með Klappið og jafnstór hluti sagðist fremur ánægður. Einungis 5 prósent svarenda sögðust svo mjög ánægð með nýja greiðslukerfið.
Svarendur í könnuninni voru alls 757 talsins og einungis tæp 19 prósent svarenda höfðu prófað að nota Klappið er könnunin var framkvæmd, en um er að ræða netkönnun sem framkvæmd var dagana 29. mars til 5. maí.
Ein og hálf stjarna í App Store – 1,7 stjörnur í Google Play
Klappið var innleitt á liðnum vetri og hefur fengið blendin viðbrögð notenda, sem hafa sumir tjáð sig um neikvæða upplifun sína á samfélagsmiðlum og það stundum ratað í fréttir. Í vefverslun Apple er snjallsímaforritið með eina og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og í vefverslun Google er appið með 1,7 stjörnur af fimm mögulegum.
Með Klappinu eru þrír greiðslumöguleikar í boði. Í fyrsta lagi er hægt að kaupa miða í Klapp-appinu í símanum og skanna miðann af símaskjánum við inngöngu í strætisvagn. Í annan stað má svo kaupa Klapp-kort, en það eru snjallkort sem borin eru upp við farmiðaskann um borð í strætisvagninum. Í þriðja lagi er svo hægt að kaupa Klapp-tíu, sem eru pappamiðar með tíu fargjöldum.
Við innleiðingu nýja greiðslukerfisins í vetur var boðað að brátt myndi eldra Strætó-snjallforrit verða tekið úr notkun, en enn er þó hægt að versla farmiða í því forriti þrátt fyrir að Klappið hafi verið innleitt fyrir rúmu hálfu ári.
Kostnaður við fyrsta áfanga greiðslukerfisins 320 milljónir
Fjárfesting Strætó í hinu nýja greiðslukerfi hefur verið fjármögnuð beint úr rekstri félagsins, sem hefur verið þungur vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Sumarið 2021 áætlaði Jóhannes S. Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó bs., í svari við fyrirspurn frá borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, að heildarfjárfestingin vegna fyrsta áfanga innleiðingar nýja kerfisins myndi nema um 320 milljónum króna.
Inni í þeirri tölu er hugbúnaðarþróun og sömuleiðis kaup á nýjum farmiðaskönnum sem settir hafa verið inn í hvern einasta strætisvagn á höfuðborgarsvæðinu.
Rafræna greiðslukerfið er hugsað til framtíðar, fyrir bæði fyrir Strætó og Borgarlínu, en einungis er búið að ljúka við fyrsta áfanga þeirra breytingar sem á að gera á greiðslukerfinu.
Næsta skref Strætó verður að innleiða snertilausar greiðslur í vagnana, þannig að notendur sem eru að kaupa staka miða geti gert það beint með sínu greiðslukorti eða Apple Pay og Samsung Pay og álíka lausnum.