Miklar verðhækkanir umfram langtímaþætti og aukin skuldsetning fyrstu kaupenda á íbúðamarkaði er töluvert áhyggjuefni, að mati Bergþóru Baldursdóttur, hagfræðings hjá Íslandsbanka. Samkvæmt henni er líklegt að aðgerðir Seðlabankans til að bregðast við þessari þróun muni ekki hafa tilætluð áhrif fyrr en framboð íbúða verði aukið hérlendis.
Í grein sem Bergþóra skrifaði í síðasta tölublaði Vísbendingar fer Bergþóra yfir áhrif faraldursins á íbúðamarkaðinn. Þar segir hún það vera mjög óvenjulegt að íbúðaverð hækki svo hratt á sama tíma og hagkerfi dregst saman, líkt og raunin var eftir að faraldurinn skall á. Sú þróun hafi hins vegar ekki verið einsdæmi fyrir Ísland, en íbúðaverð hækkaði einnig mjög hratt í öðrum OECD-ríkjum.
Þar, líkt og hérlendis, áttu aðgerðir stjórnvalda í byrjun faraldursins örvandi áhrif á íbúðamarkaðinn, en Bergþóra segir hegðunarbreytingar vegna útbreiðslu veirunnar og aukna heimavinnu einnig hafa stuðlað að verðhækkunum. Vísbendingar séu þó uppi um að þessar breytingar, sem Bergþóra nefnir kórónuáhrifin, séu að mestu að fjara út núna.
Verðhækkanirnar hafa valdið því að íbúðaverð er nú vikið verulega frá þeim þáttum sem til lengri tíma eru taldir ráða þróun þess. Sömuleiðis nefnir Bergþóra að skuldir heimilanna hafi aukist, þar sem nú þarf að taka lán fyrir stærri upphæðir til að eignast húsnæði. Sérstaklega hafi skuldirnar, sem og greiðslubyrði lána, aukist á meðal fyrstu kaupenda á húsnæðismarkaði.
Fleiri íbúðir og meiri fyrirsjáanleiki nauðsynlegur
„Þetta er töluvert áhyggjuefni,“ segir Bergþóra og bætir hún við að Seðlabankinn hafi gripið til aðgerða til að bregðast við þessari þróun, líkt og hækkun stýrivaxta, reglur um hámark veðsetningarhlutfalls og reglur um hámarksgreiðslubyrði á nýjum íbúðalánum. Hins vegar hafi þessar aðgerðir ekki haft tilætluð áhrif á íbúðamarkaðinn, en telja megi líklegt að auka þurfa framboð íbúða til þess að þær geri það.
Samkvæmt Bergþóru er erfitt fyrir íbúðamarkaðinn að bregðast við sveiflum í eftirspurn, þar sem að jafnaði tekur um tvö ár að byggja hverja íbúð. Þó sé bæði mögulegt og afar æskilegt að hafa meiri fyrirsjáanleika um stöðu og uppbyggingu nýrra íbúða á framboðshliðinni en sé núna, ásamt því að vera með skýra sýn á íbúðaþörfina næstu árin. „Það myndi í það minnsta draga úr líkum á jafn öfgakenndum sveiflum og við höfum séð upp á síðkastið,“ bætir hún við.
Hægt er að lesa grein Bergþóru í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.