Ný verðbólguspá frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, sýnir að verðhjöðnun er á evrusvæðinu. Verðbólga mælist nú -0,6 prósent fyrir janúar, en spár hagfræðinga höfðu flestar gert ráð fyrir -0,5 prósentum. Fyrr í dag komu fram tölur um verðbólgu í desember, en hún mældist -0,2 prósent þá. Mestu munar um lægra olíuverð, en verð á mat, áfengi og tóbaki lækkaði einnig lítillega.
Nýju tölurnar þykja styrkja áætlun Seðlabanka Evrópu um örvandi aðgerðir, en bankinn tilkynnti í síðustu viku um umfangsmiklar aðgerðir sem eiga að hefjast í mars. Bankinn ætlar að kaupa ríkisskuldabréf fyrir 60 milljarða evra á mánuði út september á næsta ári, eða samtals meira en trilljón evra. Þetta er gert til þess að stöðva verðhjöðunarþróun og koma verðbólgunni aftur nær markmiðum Seðlabanka Evrópu, sem eru rétt undir tveimur prósentum.
Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verðhjöðnun verði áfram meirihluta ársins en Peter Praet, yfirhagfræðingur bankans, sagði í gær að viðsnúningur verði væntanlega á þriðja ársfjórðungi.
Jákvæðar atvinnuleysistölur
Atvinnuleysi á evrusvæðinu minnkaði hins vegar óvænt milli mánaða og er nú lægra en það hefur verið í tvö ár, eða 11,4 prósent. Búist hafði verið við því að engin breyting yrði á atvinnuleysistölum. Atvinnuleysi er sem fyrr gríðarlega misjafnt í ríkjunum sem mynda evrusvæðið, mest er atvinnuleysið í Grikklandi og á Spáni, en minnst í Þýskalandi.
Sömu sögu er að segja af atvinnuleysi meðal allra 28 Evrópusambandsríkjanna, en atvinnuleysið fór niður fyrir 10 prósent í fyrsta skipti frá því í október 2011, en það mældist 9,9 prósent í desember. Rúmlega 24 milljónir manna eru enn án atvinnu innan Evrópusambandsins.