Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Hafnarfirði, þriðja stærsta sveitarfélagi landsins, er fallinn samkvæmt könnun sem Prósent gerði og birt er í Fréttablaðinu í dag.
Þar kemur fram að Samfylkingin mælist nú með 31 prósent fylgi, en hún fékk 20,1 prósent atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Þessi fylgisaukning skilar flokknum að óbreyttu fjórum bæjarfulltrúum í stað þeirra tveggja sem hann hefur í dag.
Sem stendur mynda Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur meirihluta í Hafnarfirði. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sama fylgi og hann fékk upp úr kössunum fyrir fjórum árum, eða 34 prósent, og yrði áfram stærsti flokkurinn í Hafnarfirði. Hann myndi hins vegar tapa einum bæjarfulltrúa og fá fjóra þar sem meira magn atkvæða fellur niður dautt í komandi kosningum, samkvæmt könnun Prósents. Við það fellur meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar, en Framsókn mælist nú með níu prósent fylgi eftir að hafa fengið átta prósent árið 2018, og er áfram með einn bæjarfulltrúa.
Þrjú framboð mælast ekki með mann inni: Vinstri græn, Bæjarlistinn og Miðflokkurinn. Samanlagt fylgi þeirra mælist um 13 prósent, sem eru þá atkvæði sem að óbreyttu falla niður dauð. Tvö síðastnefndu eru með einn bæjarfulltrúa hvort í dag.
Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, ákvað að snúa aftur í stjórnmál fyrr á þessu ári til að leiða lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum. Í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann tilkynnti um endurkomu sína sagðist hann stefna „óhikað að því að Samfylking vinni góðan sigur í bæjarstjórnarkosningum í maí og tvöfaldi bæjarfulltrúatölu sína, þ.e. úr tveimur í fjóra. Og að afloknum kosningum geti Samfylkingin í góðu samstarfi við aðra flokka tekið við forystu um stjórn bæjarins.
Samkvæmt könnun Prósents vilja flestir Hafnfirðingar, alls 34 prósent, sjá Guðmund Árna sem næsta bæjarstjóra. Skammt undan kemur Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og núverandi bæjarstjóri, með 32 prósent.
Könnunin var framkvæmd 3. til 10. maí, úrtakið var 680 manns og svarhlutfallið 50,5 prósent.