Meirihlutinn í Reykjavík myndi halda velli ef kosið væri í dag, en næstu sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí næstkomandi. Flokkarnir fjórir sem hann mynda: Samfylking, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn hafa samanlagt þá tólf borgarfulltrúa sem þarf til að mynda meirihluta í 23 manna borgarstjórn, sem er sami fjöldi og þeir höfðu eftir síðustu kosningar. Sá munur er þó á að Samfylkingin tapar einum borgarfulltrúa og þremur prósentustigum af fylgi en Píratar bæta við sig einum. Fjöldi fulltrúa Viðreisnar og Vinstri grænna er sá sami. Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunar sem Prósent hefur gert fyrir Fréttablaðið og birt var í dag.
Það vekur þó athygli að samkvæmt könnuninni sögðu 30 prósent aðspurðra ekki vita hvað þeir myndu kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag. Niðurstöðurnar sem birtar eru í Fréttablaðinu endurspegla því einungis kosningaáform þeirra sem tóku afstöðu. Það er því eftir nægu að slægjast fyrir flokkanna í aðdraganda kosninga.
Sjálfstæðisflokkur stendur í stað
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn í borginni með nákvæmlega sama fylgi og hann fékk í kosningum 2018, um 31 prósent. Það myndi tryggja honum átta borgarfulltrúa líkt og hann hefur nú og ljóst að flokkurinn þyrfti hið minnsta að ná einum þeirra flokka sem mynda núverandi meirihluta í samstarf til að ná stjórn á höfuðborginni á ný. Sjálfstæðisflokkurinn mun fá nýjan oddvita fyrir kosningarnar líkt og hann hefur gert fyrir allar kosningar síðan 1998, en Eyþór Arnalds tilkynnti nýverið að hann myndi hætta. Hildur Björnsdóttir, sem sat í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins 2018, hefur ein gefið kost á sér í oddvitasætið sem stendur en fyrirhugað er að halda leiðtogaprófkjör í febrúar og raða svo í önnur sæti á lista.
Fylgi Viðreisnar dalar aðeins úr þeim 8,2 prósentum sem flokkurinn fékk síðast, en hann heldur þó sínum tveimur borgarfulltrúum.
Miðflokkurinn bíður afhroð en Framsókn nær inn
Flokkur Fólksins bætir ágætlega við sig og er með nálægt sex prósent fylgi en það breytir engu um það að flokkurinn yrði að óbreyttu áfram með einn borgarfulltrúa. Vinstri græn halda áfram að vera í vandræðum í höfuðborginni, eitt sinn var á meðal bestu pólitíski veiðilenda flokksins, og mælast með rétt yfir fimm prósentustig.
Ein stærstu tíðindin í könnuninni eru þó þau að afhroð Miðflokksins frá síðustu Alþingiskosningum heldur áfram og hann mælist nú með einungis 1,4 prósent fylgi, en fékk 6,1 prósent árið 2018. Það þýðir að borgarstjórn mun kveðja Vigdísi Hauksdóttur sem setið hefur þar á þessu kjörtímabili, og látið mikið fyrir sér fara.
Flokkurinn sem Miðflokkurinn klofnaði úr, Framsóknarflokkurinn, hressist hins vegar nægilega mikið til að ná inn manni að óbreyttu, þótt fylgið mælist einungis 4,1 prósent. Framsókn fékk 3,2 prósent í kosningunum 2018.
Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 22. desember, en um netkönnun var að ræða sem send var á könnunarhóp Prósents. Úrtakið var 1.700 manns og svarhlutfallið 51 prósent. Gögnin voru vigtuð til að úrtakið endurspegli álit íbúa Reykjavíkur og tekið var tillit til kyns og aldurs.