„Áður en við byrjum fundinn þá vil ég geta þess hér að það voru mistök gerð við birtingu skýrslunnar sem mér þykir afskaplega leitt því að innihald og efnistök skýrslunnar eru með þeim hætti að hún á erindi við alla og því betur sem að hún er kynnt þeim mun betra fyrir allt og alla. Mér er hvoru tveggja ljúft og skylt að biðjast afsökunar á þessum leiðu mistökum og vona að við drögum lærdóm af þeim.“
Þannig hóf Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mál sitt á opnum streymisfundi í dag þar sem hann kynnti skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi. Skýrslan var tekin saman að beiðni ráðherra en hún inniheldur „ítarlega umfjöllun um núverandi stöðu sjávarútvegs- og fiskeldis og áskoranir og tækifæri til framtíðar“.
Kjarninn sendi upplýsingafulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrirspurn í gær þar sem blaðamaður óskaði eftir því að fá skýrsluna afhenda fyrir fundinn. Í svari ráðuneytisins kom fram að skýrslan lægi ekki fyrir á þeim tímapunkti en yrði aðgengileg eftir kynningarfundinn. Óskaði blaðamaður eftir því í framhaldinu að fá skýrsluna gegn loforði um að segja ekkert frá henni fyrr en að fundi loknum. „Mér heyrist ekki því miður,“ var svarið frá ráðuneytinu.
Umfjöllun um skýrsluna birtist aftur á móti í morgun á forsíðu Morgunblaðsins og í viðskiptakálfi Fréttablaðsins. Er ráðherra væntanlega að vísa í afsökunarbeiðni sinni í það að sumir fjölmiðlar fengu skýrsluna á undan öðrum.