Francois Hollande Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynntu óvænt um ferð til Kíev og Moskvu í dag, til þess að reyna að binda endi á átökin í austurhluta Úkraínu. Þau funda nú í Kíev og munu funda í Moskvu á morgun með Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
Að sögn Hollande ætla þau sér að kynna tillögu að friðsamlegri lausn sem allir ættu að geta sætt sig við. Hann sagði hins vegar líka að það væru takmörk fyrir því hversu lengi hægt væri að leita friðsamlegra lausna. „Það ríkir stríð í Úkraínu. Verið er að nota vopn og óbreyttir borgarar eru drepnir á hverjum degi,“ sagði Hollande.
Vilja friðsamlega lausn en bíða ekki endalaust
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú þegar kominn til Kíev til þess að ræða við Petro Poroshenko, forseta Úkraínu, og aðra háttsetta embættismenn.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, á fundi í Kíev í dag.
Kerry sagði í Kíev í dag að Bandaríkjamenn vildu friðsamlega lausn á málinu en að þeir myndu ekki líta framhjá yfirgangssemi og framferði Rússa. „Við getum ekki lokað augunum gagnvart skriðdrekum sem fara yfir landamærin frá Rússlandi og koma til Úkraínu,“ sagði hann á blaðamannafundi með Poroshenko. Kerry sagði líka að nú væri runninn upp mikilvægur tímapunktur fyrir svæðið, fyrir Úkraínu og fyrir friðarhorfur.
Hann sakaði Rússa um að brjóta gegn fullveldi Úkraínu með því að taka þátt í átökunum þar, sem Rússar neita enn. „Við viljum friðsamlega lausn með samningum - en það er ekki hægt að hafa einhliða frið,“ sagði Kerry jafnframt. Hann bætti því við að nú sé Barack Obama Bandaríkjaforseti að velta framhaldinu fyrir sér, meðal annars þeim möguleika að senda vopn til stjórnvalda í Úkraínu. Bandaríkjamenn hafa hingað til þvertekið fyrir að þeir ætluðu sér að senda vopnaaðstoð til stjórnvalda í Úkraínu.
Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins sagði að ef Bandaríkin ákveði að senda vopn til Úkraínu muni það valda gríðarlegum skaða í samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna.
Mjög skiptar skoðanir eru á því hvernig taka skuli taka á hernaðaraðstoð, en stjórnvöld í Úkraínu hafa nokkrum sinnum óskað eftir aðstoð. Angela Merkel hefur sagst vera algjörlega mótfallin því að veita hernaðaraðstoð og Þýskaland taki ekki þátt í því. Eftir fundinn í Moskvu á morgun heldur hún svo til Bandaríkjanna þar sem hún mun funda með Obama eftir helgi.
Evrópusambandið er sagt vonast til þess að með meiri þunga í umræðum um hernaðaraðstoð sé hægt að ýta báðum deiluaðilum að samningaborðinu. Þá hefur verið greint frá því að Atlantshafsbandalagið ætli að setja saman 5.000 manna herdeild sem verði hægt að senda til Austur-Evrópu með mjög stuttum fyrirvara.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær hefur ofbeldi gegn óbreyttum borgurum aukist mjög undanfarnar vikur og hafa nú meira en 5.000 óbreyttir borgarar látist frá því að átök brutust út. Þar af hafa fleiri en tíu látist á hverjum degi frá því í byrjun janúar.