Angela Merkel Þýskalandskanslari segist reiðubúin að skoða frekari skuldabreytingar fyrir Grikkja þegar búið er að greiða úr þeim breytingum á efnahagsmálum sínum sem nú er unnið að. Þetta kom fram í sjónvarpsviðtali í ARD TV í Þýskalandi í dag.
Merkel sagðist vera opin fyrir því að ræða að lækka vexti á lánum og sömuleiðis að lengja í lánum. Svona lagað muni þó aðeins koma til greina eftir að búið er að semja um smáatriðin í nýjasta neyðarlánasamkomulaginu milli evruríkjanna og Grikklands. Skuldir verði hins vegar ekki felldar niður. Það sé ekki hægt í myntsamstarfi eins og evrusamstarfið er. „Grikkir hafa nú þegar fengið afskriftir. Lánardrottnar í einkageiranum tóku á sig niðurfellingu skulda og við höfum nú þegar lengt í lánunum einu sinni og lækkað vexti,“ sagði Merkel.
„Við getum talað um slíka möguleika aftur nú, en aðeins þegar búið er að fara í gegnum fyrstu skoðun á samkomulaginu sem nú verður samið um. Þá verður þessi spurning rædd - ekki núna, heldur þá.“
Viðtalið við Merkel verður sýnt í fullri lengd í kvöld.