Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða rýrnuðu um 184 milljarða króna í janúar. Þetta er í fyrsta skiptið sem eignir lífeyrissjóðanna hafa rýrnað síðan í byrjun faraldursins og langmesta rýrnunin á milli mánaða síðan í fjármálahruninu árið 2008. Þetta kemur fram í nýbirtum hagtölum frá Seðlabanka Íslands.
Erlendar eignir aldrei rýrnað jafnmikið
Langmesta virðisrýrnunin var í erlendum eignum, en þær drógust saman um 166 milljarða króna á tímabilinu, eða um sjö prósent. Hluta þessarar rýrnunar má rekja til lækkandi hlutabréfaverðs á alþjóðamörkuðum, en S&P 500 hlutabréfavísitalan lækkaði um fimm prósent á tímabilinu.
Á sama tíma styrktist gengi krónunnar um rúm tvö prósent gagnvart helstu viðskiptamyntum hennar, sem leiðir til þess að erlendar eignir lækka í virði í krónum talið.
Erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafa aldrei dregist jafnmikið saman í einum mánuði í krónum talið síðan Seðlabankinn byrjaði að mæla þær í ársbyrjun 1997. Næstmesta rýrnunin var í árslok 2018, en þá drógust erlendar eignir saman um tæpa 90 milljarða króna. Þó hafa erlendu eignirnar áður rýrnað meira í prósentum talið, til að mynda drógust þær saman um 13 prósent í október 2008.
Hlutabréf lækka en iðgjaldakröfur aukast
Virðisrýrnun innlendra eigna nam 17 milljörðum króna og var hún innan við 0,4 prósent. Hana má alfarið rekja til minni hlutabréfaeignar, en virði þeirra dróst saman um 38 milljarða, eða um þrjú prósent. Hér hefur lægra hlutabréfaverð einnig haft áhrif á eignasafnið, en úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um fimm prósent í mánuðinum.
Á sama tíma jókst útlánasafn sjóðanna um rúma tvo milljarða króna, en skuldabréfaeign þeirra jókst um svipaða upphæð. Mest var þó aukningin í iðgjaldakröfum sjóðanna, en þær jukust um 13 milljarða, sem nemur um 60 prósentum á milli mánaða.