Lúðvík Elíasson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, fjallaði um virði peninga í erindi á ör-ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík á miðvikudag, í tilefni af Alþjóðlegri fjármálalæsisviku. „Við notum peninga sem mælieiningu en það er vandmeðfarið, því aðrar mælieiningar sem við notum eru fast-skilgreindar. Það eru peningar ekki,“ sagði Lúðvík og benti máli sínu til stuðnings að metri væri alltaf metri og að kíló væri alltaf kíló.
„Virði peninga finnum við út frá því verðmæti sem við erum tilbúin að gefa fyrir vöruna. Við getum alltaf skipt á peningum fyrir aðra vöru,“ sagði hann og tók dæmi af gossjálfsalanum í Seðlabankanum, þar sem kókflaska kostar 230 krónur. „Það þýðir að ein króna kostar 1/230 af kókflösku. Ef virði peninga breytist, þá breytist verð annnarra vara talið í peningum. Það kallast breyting á verðlagi. Við tölum um verðbólgu ef virði peninga minnkar og verðhjöðnun ef það eykst,· sagði Lúðík.
Bíómiðinn hækkað en er ódýrari
Dæmi um hvernig verðgildi peninga hefur breyst er verðhækkun á bíómiða. Bíómiði kostaði 800 krónur árið 2003 en kostaði 1.300 krónur árið 2013. Hann hefur því hækkað á þessum tíma um 62 prósent. Á sama tíma hafa gallabuxur hækkað um 122%.
„Ef við mælum þetta aftur á móti með sömu einingu, rétt eins og við myndum nota metra ef við værum að mæla vegalengd, og notum verðgili krónunnar frá 2007, þá hefur bíómiðinn í raun lækkað um 10 prósent. Bíómiðinn er orðinn ódýrari, þó við borgum fleiri krónur fyrir hann.“
Hvað ef metrinn rýrnar?
Frá árunum 2003 til 2013 rýrnaði verðgildi krónunnar um 45%, útskýrði Lúðvík. „Hvað hefði gerst ef metrinn hefði rýrnað um 45 prósent,“ spurði hann og sagði 388 kílómetra vegalengdina milli Reykjavíkur og Akureyrar árið 2003 þá vera 705 kílómetra árið 2013. „Við þyrftum alltaf að vera að uppfæra kortin, rétt eins og við uppfærum verðskrárnar.“
Lúðvík sagði þennan misskilning gæta víða, það er að fólk tali eins og verðgildi krónunnar hafi verið það sama í gegnum árin. „Svona talar fólk oft um lánin sín, sem það hefur borgað mikið af en þau hafi samt hækkað. Það hefur borgað í allt annarri einingu,“ sagði Lúðvík og tók fram að slíkar villur hafi ratað víða, til dæmis í skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu og í niðurstöðu dóms.
Hér má sjá glærurnar frá erindi Lúðvíks og hér má sjá erindi hans sem hefst á 41. mínútu. Lúðvík tók sérstaklega fram að skoðanir hans endurspegla ekki skoðanir Seðlabankans.