Maður sem fann 730.000 sænskar krónur, andvirði rúmlega 11 milljóna íslenskra króna, á gangstétt í sænska smábænum Berga í Kalmar, má eiga alla peningana. Hann hafði skilað peningunum til lögreglu en enginn eigandi gaf sig fram. Frá þessu er greint á The Local.
Krónurnar 730.000 voru allar í sænskum seðlum sem voru innpakkaðir í pappír. Maðurinn fann pakkann í vegbrún í iðnaðarhverfi í bænum þegar hann var í göngutúr fyrr í ár. Hann fór rakleiðis með peningana til lögreglunnar í Helsingborg þar sem málið hefur verið til rannsóknar en í Berga búa aðeins rúmlega 700 manns.
Samkvæmt sænskum lögum á sá fund sem finnur, hafi lögmætur eigandi ekki gefið sig fram innan þriggja mánaða. Lögreglan í Helsingborg tilkynnti svo í morgun að peningunum hafi verið skilað til hins nýja samviskusama eiganda.
„Við höfum fært manni á miðjum aldri 730.000 krónur í seðlum. Seðlarnir eru allir ófalsaðir,“ sagði Richard Glantz, talsmaður lögreglunnar við dagblaðið Sydsvenskan. Hann sagði málið jafnframt mjög undarlegt og fullyrti að aldrei hefðu fundist svo háar fárhæðir á víðavangi.