Fólk er mun líklegra til að vera hlynnt áformum um miðhálendisþjóðgarð heldur en andvígt þeim. Ekki er mikill munur á jákvæðum og neikvæðum viðhorfum gagnvart honum hjá fólki sem hefur farið í lengri ferðir í óbyggðum Íslands og öðrum, en mikill munur er á stjórnmálaskoðunum þeirra sem eru andvígir og þeirra sem eru neikvæðir.
Þetta er á meðal niðurstaðna sem birtust í skoðanakönnun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Maskínu, en fjallað var um þær í síðasta hefti Vísbendingar. Alls voru svarendur könnunarinnar 5349 talsins, en af þeim sögðust tæp 69 prósent þeirra annað hvort vera hlynnt eða andvíg hugmyndinni um þjóðgarðinn. 47,5 prósent svarenda voru hlynnt áformunum, en 21,1 prósent þeirra voru andvíg þeim.
Ferðavenjur skýra ekki afstöðu
Samkvæmt Ágústi Arnórssyni, hagfræðingi hjá Hagfræðistofnun HÍ, virðast margir þeirra sem eru andvígir áformunum hafa áhyggjur af því að aðgengi þeirra að þjóðgarðssvæðinu yrði skert. Þessar áhyggjur gætu gefið til kynna að þeir sem ferðist oftar um hálendið séu mótfallnari hugmyndum um miðhálendisþjóðgarð.
Hins vegar benda könnunarinnar til þess að svo sé ekki, þar sem enginn skýr munur er á viðhorfum þeirra sem hafa farið í lengri ferðir í óbyggðum Íslands og annarra svarenda gagnvart þjóðgarðinum, ef frá er talið hlutfall þeirra sem taka ekki afstöðu.
Sjálfstæðismenn líklegri til að vera mótfallnir
Skýrari munur er á viðhorfum svarenda könnunarinnar eftir því hvaða flokk þeir kjósa.Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins eru líklegri til að vera andvígir áformunum, á meðan kjósendur flestra hinna stjórnmálaflokkanna eru líklegri til að vera hlynntir þeim. Ágúst segir þennan mun geta varpað ljósi á það hvers vegna ekki hafi tekist að koma frumvarpinu um þjóðgarðinn í gegnum þingið, þrátt fyrir að kveðið hafi verið á um hann í stjórnarsáttmálanum.