Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar við áformum um opnari landamæri á meðan bólusetningar hafi ekki náð þeim markmiðum sem stefnt er að. Í ályktun miðstjórnar segir að ávinningurinn af þeim áformum sé óljós.
Ríkisstjórnin hefur boðað að frá og með 1. maí verði tekið upp litakóðunarkerfi á landamærum Íslands, sem byggist á því að misstrangar reglur gildi um komufarþega eftir því hver staða faraldursins er í því ríki sem þeir koma frá.
Einungis vottorð um neikvætt próf og ein landamæraskimun fyrir suma
Áætlun ríkisstjórnarinnar um breytt fyrirkomulag sóttvarna á landamærum eftir 1. maí var kynnt 15. janúar og hefur verið sögð ætluð til þess að gefa ferðaþjónustunni hér á landi fyrirsjáanleika inn í sumarið.
Samkvæmt áætlunum sem stjórnvöld settu fram munu þeir sem koma til landsins frá „grænum“ eða „appelsínugulum“ ríkjum þar sem 14 daga nýgengi smita er allt að 50 til 150 smit á hverja 100 þúsund íbúa geta sleppt bæði sóttkví og síðari skimun hér á landi, ef þeir koma með neikvætt COVID-19 próf og framvísa á landamærunum.
Það hvort miðað er við nýgengi smita upp á 50 eða 150 á hverja 100 þúsund íbúa fer eftir því hvort yfir eða undir 4 prósent allra COVID-19 prófa sem tekin hafa verið í landinu sem ferðamaðurinn kemur frá hafa reynst jákvæð undanfarna viku.
Í íslensku samhengi þýðir 14 daga nýgengi smita upp á 150 á hverja 100 þúsund íbúa að hér á landi hefðu greinst 39,2 smit að meðaltali á hverjum degi á 14 daga tímabili.
Til mikils að vinna að fólk sé frjálst innanlands
Miðstjórn ASÍ geldur sem áður segir varhug við fyrirætlunum stjórnvalda og segir hætt við því að ferðaþjónustan og tengdar greinar geti borið meiri skaða af en ella ef opnunin verði til þess að grípa þurfi til harðari sóttvarnaraðgerða innanlands.
„Horfa ber til þess að smit eru enn afar útbreidd í fjölmörgum löndum heims og þar á meðal eru nýrri afbrigði af veirunni sem enn er takmörkuð þekking á. Það er til mikils að vinna fyrir samfélagið á Íslandi að fólk sé frjálst ferða sinna innanlands í sumar og geti notið sumarleyfa og samvista án hertra aðgerða,“ segir í ályktun miðstjórnarinnar.