Skýr merki er um að einstakir atvinnurekendur hyggist hefja rekstur á ný með því að þrýsta niður launum starfsfólks. Þetta kemur fram í nýrri ályktun frá miðstjórn ASÍ og krefst miðstjórnin að ferðaþjónustan verði ekki endurreist á grundvelli lakari kjara og starfsumhverfis en áður.
Miðstjórnin harmar þá „sleggjudóma“ sem birtast í opinberri umræðu um málefni atvinnuleitenda. „Sú umræða er ekki studd gögnum og er úr hófi fram neikvæð og einhliða. Miðstjórn varar við því að ýtt sé undir fordóma í umfjöllun um vanda þeirra sem glíma við atvinnuleysi,“ segir í ályktuninni. Miðstjórnin hvetur bæði atvinnurekendur og fjölmiðla til að láta af „neikvæðri og beinlínis fordómafullri umfjöllun um atvinnuleitendur.“
Miðstjórnin vísar þar til fullyrðinga nokkurra atvinnurekenda sem birst hafa í fjölmiðlum síðustu daga. Meðal annars sagði Steingrímur Birgisson, forstjóri bílaleigunnar Höldurs, það í viðtali í Bítinu á Bylgjunni að hvatinn til að vinna væri orðinn lítill því atvinnuleysisbætur væru orðnar of háar.
Tal um óhóflega háar bætur standist ekki skoðun
„Þau dæmi sem hafa verið nefnd og fjölmiðlar hafa gert að fréttaefni heyra til undantekninga og ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar á þeim, hvorki af hálfu atvinnurekenda né Vinnumálastofnunar,“ segir í ályktun miðstjórnarinnar sem minnir á að atvinnuleysi sé í sögulegu hámarki. Nú þegar hafi átakið Hefjum störf engu að síður skilað miklum árangri að mati miðstjórnarinnar.
Hlutfall grunnbóta af lágmarkstekjutryggingu er nú lægra en það var á árunum 2006 til 2010 og segir í ályktuninni að allt tal um að atvinnuleysisbætur séu fram úr hófi háar standist ekki skoðun. „Grunnbætur nema 88% af lágmarkstekjutryggingu en á árunum 2006–2010 var það hlutfall á bilinu 90–100%. Tekjufall atvinnulausra í COVID-kreppunni er að jafnaði 37% og því augljós að fólk gerir það ekki að gamni sínu að hafna vinnu.“
Varar við fordómum í garð aðflutts verkafólks
Miðstjórnin vekur athygli á því að aðflutt verkafólk sé í meirihluta þeirra sem eru án atvinnu og varar við fordómum í garð þessa hóps, „sem auðveldlega má lesa úr orðum þeirra atvinnurekenda sem fram hafa komið í fjölmiðlum.“ Samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar er almennt atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hér á landi 23 prósent en það er 10,4 prósent í heild.
Þá segir miðstjórnin almenning hafa haldið fyrirtækjum á lífi að undanförnu, „Miðstjórn ASÍ minnir á að þeir atvinnurekendur sem nú veitast að atvinnuleitendum hafa um margra mánaða skeið notið margvíslegra opinberra styrkja. Þeir hinir sömu geta nú að auki ráðið starfsfólk með beinum stuðningi. Með öðrum orðum er það almenningur á Íslandi sem haldið hefur fyrirtækjum atvinnurekenda á lífi.“