Fjárveitingarkerfi Háskóla Íslands felur í sér mikið óhagræði, sem endurspeglast meðal annars í hvötum til að lágmarka kennslu og miklum hallarekstri hagfræðideildar skólans. Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við skólann, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Kaldhæðnisleg örlög hagfræðideildar
Gylfi er einn af sjö fastráðnum kennurum við hagfræðideild háskólans, en á undanförnum árum hafa þrír kennarar þar hætt störfum. Þar af hafa tveir þeirra farið á eftirlaun, en einn þeirra, Ásgeir Jónsson, er nú seðlabankastjóri. Samkvæmt Gylfa er fyrirséð að tveir aðrir kennarar í deildinni fari á eftirlaun á næstu tveimur til þremur árum.
„Þrátt fyrir að mörgu leyti ágætan árangur af starfi hagfræðideildar þá ber skugga á þegar kemur að fjárhag deildarinnar,“ segir Gylfi og bætir við að það sé kaldhæðnislegt að sú deild sem fjallar um rekstur fyrirtækja og kostnaðar- og ábatagreiningu hafi verið rekin með halla flest árin frá því hún var fyrst sett á laggirnar.
Þessi halli gerir hagfræðideildinni erfitt fyrir að bæta við sig starfsmönnum, þrátt fyrir að kennurum hafi fækkað sem um munar. Vonir standa nú til að hægt verði að ráða einn kennara í viðbót og verða þeir því sex í árslok 2025, sem er um helmingsfækkun frá því sem var fyrir nokkrum árum.
Ójöfn fjármögnun og skrýtnir hvatar
Samkvæmt Gylfa er hallinn tilkominn vegna fjármögnunarkerfis Háskóla Íslands, sem sé byggt á svokölluðu deililíkani. Líkanið úthlutar fasta fjárhæð fyrir hvern útskrifaðan nemanda sem útskrifast innan hverrar deildar, en fjárhæðin á hvern nemanda er mismunandi eftir deildum. Þannig fær hug- og félagsvísindadeild, ásamt stærðfræði- og tölvunarfæðideild minnsta peninginn fyrir hvern útskrifaðan nemanda, á meðan þau eru mun hærri í verkfræði og raunvísindum, kennslufræðum og heilbrigðisvísindum.
Til viðbótar við ójafna fjármögnun bendir Gylfi á að kerfið bjóði upp á ýmsa aðra skrýtna hvata, líkt og að kennarar hvetji ekki nemendur sína til að taka námskeið í öðrum deildum eða að þeir leggi ofuráherslu á rannsóknir í stað kennslu en vilji þó fjölga nemendum.
„Eins og í miðstýrðum hagkerfum felur miðstýrt hagkerfi Háskóla Íslands í sér margs konar óhagræði,“ bætir Gylfi við. „Það er offramleiðsla á sumu og ekki nóg framleitt af öðru.“ Þá segir hann að hvati kennara til að lágmarka kennslu gera þá dýrari og að hækkandi kostnaður þeirra komi í veg fyrir nýliðun.
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.