Kristrún Frostadóttir og Sigmar Guðmundsson þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar gerðu bæði væntanlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans og áhrifin sem hún mun hafa á húsnæðislán landsmanna að umtalsefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Kristrún sagði frá því að þingflokkur Samfylkingarinnar ásamt fulltrúum minnihlutans í fjárlaganefnd myndi í dag leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til þess að milda höggið á heimilin í landinu sem við blasi vegna mikillar verðbólgu og vaxtahækkana.
„Líta þarf til beins fjárhagsstuðnings vegna snarpra breytinga á húsnæðiskostnaði en einnig gera heimilunum kleift að dreifa auknum kostnaði yfir lengra tímabil. Fordæmin eru nú þegar til staðar erlendis,“ sagði Kristrún og bætti því við að færa mætti sterk rök fyrir því núverandi staða í efnahagsmálum, bæði hvað varðar verðbólgu og húsnæðisverðshækkanir væri „tilkomin vegna hagstjórnarmistaka af hálfu stjórnvalda í heimsfaraldrinum, sem gripu of seint til sértækra aðgerða og úthýstu ákvörðunum um dreifingu fjármagns til bankakerfisins og Seðlabankans.“
„Eignaverð hefur rokið upp, þrýst á verðbólgu og nú þarf að snúa olíuskipinu við,“ sagði Kristrún og bætti við því við að stjórnvöld hefðu ítrekað á undanförnum mánuðum ítrekað vitnað til „lágra vaxta vegna vel heppnaðra efnahagsúrræða“ og bæru „ábyrgð á því að hafa hvatt fólk til aukinnar skuldsetningar á einstökum tímum í sögu vaxta á Íslandi.“
„Í raun má segja að heimilin í landinu hafi skuldsett sig um 450 milljarða króna fyrir hvatningu stjórnvalda,“ sagði Kristrún og bætti því við að þessi viðbótarskuldsetning hefði gert heimilin í landinu berskjölduð fyrir hertu aðhaldsstigi í peningastjórnun sem nú blasi við.
„Mikilvægt er að ríkisstjórnin verði ekki of sein að bregðast við þessum seinni fasa af efnahagsáhrifum kórónukreppunnar þar sem vandinn er fyrst og fremst verðbólga og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þessar mótvægisaðgerðir þurfa að vera klárar þegar og ef kallið kemur,“ sagði Kristrún.
Heimili eigi ekki að þurfa að vera með greiningardeildir
Sigmar sagði greinendur á markaði sammála um að vaxtahækkun Seðlabankans á morgun yrði umtalsverð og það myndi hafa mikil áhrif á heimilin í landinu.
„Staðan er einfaldlega sú að vaxtahækkanir á Íslandi á tiltölulega stuttu tímabili eru að þurrka út meira en útborguð mánaðarlaun yfir árið hjá manneskju með meðaltekjur og algengt húsnæðislánaform. Þetta á við um þúsundir heimila,“ sagði þingmaðurinn og bætti við að þau skilaboð sem Bjarni Benediktsson hefði fært fram í sérstökum umræðum um efnahagsmál í þinginu í gær hefðu verið þau að það væri orðið auðveldara fyrir fólk að endurfjármagna húsnæðislánin sín.
„Hvers konar kerfi er það sem krefst þess af venjulegum fjölskyldum að þær nánast þurfi að halda úti sinni eigin greiningardeild eins og bankarnir til að lágmarka tjón í vaxtaumhverfi krónuhagkerfisins? Er það sanngjarnt að heimilin í landinu þurfi að vera með virka áhættustýringu árið um kring til að verja sína verðmætustu eign?“ spurði Sigmar og gaf síðan lítið fyrir þau orð fjármálaráðherra að hann teldi raunhæft að vaxtaumhverfið á Íslandi gæti orðið svipað og í nágrannalöndunum.
„Þessi sami fjármálaráðherra hefur stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar samfellt frá árinu 2013. Flokkur hans hefur stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar nánast allan lýðveldistímann. Með sama áframhaldi, með sama hraða og sömu vaxtaþróun og sama gjaldmiðil og undanfarna áratugi má gera ráð fyrir að draumur ráðherrans verði orðinn að veruleika löngu eftir að við öll verðum komin undir græna torfu. Heimilin í landinu þola ekki þá bið,“ sagði Sigmar.