10 staðreyndir um verðbólgu

Fréttir af verðhækkunum hafa verið áberandi í efnahagsumræðu síðustu mánaða. Kjarninn tók saman tíu staðreyndir um verðbólguna og söguleg áhrif hennar á Íslandi.

peningar
Auglýsing

1. Hús­næð­islið­ur­inn langstærstur

Verð­bólgan sýnir hversu mikið verðið á dæmi­gerðum vörum og þjón­ustu sem heim­ili lands­ins neyta hafa hækkað í verði, miðað við sama mánuð ári fyrr. Hag­stofan mælir þetta út frá vísi­tölu neyslu­verðs, en þar fær hver vöru­flokkur mis­mikið vægi eftir því hversu stór hluti hann er af útgjöldum heim­il­anna.

Lang­mesta vægið fær svo­kall­aði hús­næð­islið­ur­inn sem mælir öll hús­næð­is­gjöld heim­il­anna, en hann er um þriðj­ungur vísi­töl­unn­ar. Þar er inni­falið leigu­verð hús­næðis og verð á við­haldi þess, sem og orku­kostn­að­ur­inn vegna raf­magns og hita. Einnig er kostn­að­ur­inn við að búa í eigin hús­næði met­inn, en sá kostn­aður fylgir að ein­hverju leyti fast­eigna­verði.

Næst­stærsti lið­ur­inn í vísi­töl­unni sam­anstendur svo af mat og drykkj­ar­vörum, en vægi hans er 14,5 pró­sent. Ferðir og flutn­ing­ar, sem inni­halda rekstur bíla og bens­ín­kostnað þeirra, er svo með tæp­lega 14 pró­senta vægi.

Auglýsing

2. Fast­eigna­verð hefur áhrif

Þar sem hús­næð­islið­ur­inn hefur mikið vægi í neyslu­verðs­vísi­töl­unni hefur fast­eigna­verð haft tölu­verð áhrif á verð­bólgu í gegnum tíð­ina, sér­stak­lega þegar verð­hækk­anir þar eru mikl­ar. Sú er raunin þessa stund­ina, en sam­kvæmt Hag­stofu mæld­ist verð­bólgan í jan­úar 5,7 pró­sent, á meðan hún væri 3,7 pró­sent ef ekki væri fyrir hús­næð­islið­inn.

Hús­næð­islið­ur­inn hefur hins vegar unnið gegn sveiflum í verð­bólg­unni í sögu­legu til­liti, þar sem hann hefur ekki hækkað í takti við aðrar neyslu­vör­ur. Ef ekki væri fyrir lið­inn hefði verð­bólgan á síð­ustu þremur ára­tugum sveifl­ast meira, bæði upp og nið­ur.

3. Hús­næð­islið­ur­inn er mik­il­vægur hluti af vísi­töl­unni

Þing­menn Fram­sókn­ar­flokks­ins og Flokks fólks­ins hafa nú lagt til að hús­næð­islið­ur­inn yrði fjar­lægður úr vísi­tölu neyslu­verðs og hafa haldið því fram að hann sé ekki til staðar í verð­bólgu­mæl­ingum ann­arra landa.

Þetta er hins vegar rangt, önnur lönd mæla einnig kostn­að­inn af því að búa í eigin hús­næði, líkt og alþjóð­legir staðlar kveða á um. Aftur á móti eru reikn­i­að­­ferð­­irnar til að meta þennan kostnað mis­­mun­andi á milli landa, þar sem sum lönd miða við leig­u­verð og önnur líta fram hjá skamm­­tíma­­sveiflum í fast­eigna­verði.

4. Gengið býr til sveiflur

Annar stór áhrifa­þáttur verð­bólg­unnar er gengi krón­unn­ar, sem fer eftir trú erlendra fjár­festa og neyt­enda á íslenska fram­leiðslu. Eftir því sem krónan er veik­ari verða erlendir gjald­miðlar dýr­ari og þar af leið­andi hækka inn­fluttar vörur í verði. Þar sem um helm­ingur af allri neyslu heim­il­anna er á inn­fluttum vörum og þjón­ustu veldur geng­is­veik­ing því alla jafna verð­bólgu.

Geng­is­styrk­ing dregur aftur á móti úr verð­bólgu­þrýst­ingi, þar sem hún leiðir til þess að inn­fluttar vörur lækka í verði. Slíkt gerð­ist á seinni hluta árs­ins 2016 og fyrri hluta árs­ins 2017, en þá dró veru­lega úr inn­fluttri verð­bólgu á meðan gengið styrkt­ist. Ef ekki hefði verið fyrir hús­næð­islið­inn hefði verð­bólgan verið nei­kvæð og breyst í verð­hjöðnun á þessum tíma.

5. 103 pró­senta verð­bólga árið 1983

Breyt­ingar í gengi var einmitt drif­kraftur óstöð­ug­leika í verð­lagi á níunda ára­tugnum, en þá fór verð­bólga í sögu­legar hæð­ir. Í ágúst 1983 mæld­ist verð­bólgan í 103 pró­sentum og hefur hún aldrei verið hærri hér­lend­is.

Á þessum tíma voru geng­is­breyt­ing­arnar hand­stýrðar af stjórn­völd­um. Gengið var reglu­lega látið falla á átt­unda og níunda ára­tugnum til þess að bæta stöðu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja í land­inu, sem hagn­ast á veik­ara gengi þar sem fisk­ur­inn varð þá ódýr­ari í augum útlend­inga.

Þessar geng­is­­fell­ingar leiddu svo til hærra verðs inn­­­fluttra vara, en í kjöl­far þess kröfð­ust laun­þegar hærri launa. Hærri laun þrengdu loks að sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækj­um, sem leiddi til ann­­arrar geng­is­­fell­ingar að hálfu stjórn­­­valda.

Til við­­bótar við þessa víxl­verkun magn­að­ist verð­­bólgan svo enn frekar þar sem verka­lýðs­hreyf­­ingin var óviss um fram­­tíð­­ar­verð­lag og upp­­­færði því kröfur sínar með stuttu milli­­bili og tíðum verk­­föll­um. Ekki náð­ist að binda endi á þennan víta­hring fyrr en með Þjóð­ar­sátt­inni árið 1990, þegar stjórn­völd, verka­lýðs­fé­lög og sam­tök vinnu­veit­enda sam­mælt­ust um að halda öll að sér höndum til að koma böndum á verð­bólg­una.

6. Verð­trygg­ingin

Ein afleið­ing verð­bólgu­ár­anna á átt­unda ára­tugnum voru verð­tryggð hús­næð­is­lán, sem voru sett á með Ólafslög­unum svoköll­uðu árið 1979. Á þessum tíma höfðu magn­ast áhyggjur yfir því að verð­bólgan væri byrjuð að grafa undan fjár­mála­kerf­inu og mögu­leikum þess til að fjár­magna atvinnu­líf lands­manna, þar sem lánin svo til brunnu upp í verð­bólg­unni.

Með verð­trygg­ing­unni eru lánin tengd vísi­tölu neyslu­verðs og hækka þau því í takt við verð­bólgu. Slíkt fyr­ir­komu­lag eyðir óvissu bank­anna um að virði útlána þeirra hverfi ef verð­bólgan er langt umfram vænt­ingar og gátu þeir því boðið upp á lán með lægri vöxt­um. Heim­ilin högn­uð­ust einnig á fyr­ir­komu­lag­inu, þar sem lægri vextir draga úr greiðslu­byrði lán­anna.

Verð­trygg­ing er almenn­ari á Íslandi en víð­ast ann­ars staðar en hún er þó þekkt í mörgum löndum í ein­hverjum mæli. Það eru helst lönd sem búa við óstöðugan, lít­inn gjald­miðil og mikla verð­bólgu sem búa við verð­trygg­ingu í miklum mæli. Segja má að verð­trygg­ingin sé alla jafna hag­kvæm­ari eftir því sem verð­bólga og óvissa er meiri.

7. Stór­auknar skuldir eftir fjár­mála­hrunið

Í kjöl­far fjár­mála­hruns­ins árið 2008 versn­aði þó skulda­staða heim­ila sem höfðu tekið verð­tryggð hús­næð­is­lán til muna, þar sem verð­lag hækk­aði hratt vegna geng­is­breyt­inga. Í jan­úar árið 2009 náði verð­bólgan hámarki og mæld­ist þá í 18,6 pró­sent­um, en hún komst ekki niður fyrir tíu pró­sent fyrr en í októ­ber sama ár.

Á sama tíma dróst eft­ir­spurnin eftir nýjum hús­næð­is­lánum hratt saman og stýri­vextir voru hækk­aðir til þess að koma böndum á verð­bólg­una. Þetta tvennt leiddi til lægra fast­eigna­verðs, en sam­kvæmt Þjóð­skrá lækk­aði það um 13 pró­sent á milli októ­ber­mán­aða 2008 og 2009.

Þessi lækk­un, til við­bótar við mikla verð­bólgu, leiddi til þess að skuldir vegna verð­tryggðra hús­næð­is­lána voru í sumum til­fellum orðnar mun meiri en mark­aðsvirði fast­eign­anna sem tekið var lán fyr­ir.

8. Mun færri sem taka verð­tryggð lán núna

Vegna óvissu um verð­bólgu og hárra vaxta á hús­næð­is­lánum héldu þó verð­tryggð lán vin­sældum sínum eftir efna­hags­á­fall­ið, en á árunum 2010-2018 var meiri­hluti útlána banka­kerf­is­ins til heim­ila verð­tryggð­ur.

Á síð­ustu árum hefur þessi staða hins vegar gjör­breyst, en sam­hliða lækk­andi vöxtum á hús­næð­is­lánum hefur ásóknin í óverð­tryggð hús­næð­is­lán auk­ist til muna. Nú eru ein­ungis 30 pró­sent allra útlána til heim­ila verð­tryggð, og hefur það hlut­fall aldrei verið jafn­lágt á þess­ari öld. Þrátt fyrir það er virði útistand­andi verð­tryggðra hús­næð­is­lána enn tölu­vert, en sam­kvæmt Seðla­bank­anum nam það 906 millj­örðum króna í nóv­em­ber í fyrra.

9. Margar ástæður fyrir verð­bólg­unni núna

Eftir að heims­far­ald­ur­inn braust út hefur verð­bólga auk­ist tölu­vert hér­lend­is, eða úr tveimur pró­sentum í tæp sex pró­sent. Í byrjun far­ald­urs­ins var hún fyrst og fremst vegna verð­hækk­ana á inn­fluttum vörum, þar sem gengi krón­unnar hafði veikst tölu­vert. Einnig hækk­aði verðið á ýmsum vörum inn­an­lands sem meiri eft­ir­spurn varð eftir vegna far­ald­urs­ins, líkt og mat­vöru og raf­tæki.

Eftir sem leið á far­ald­ur­inn fór þó gengið að styrkj­ast hægt aftur og dró því úr verð­hækk­unum á ýmsum inn­fluttum neyslu­vör­um. Hins vegar byrj­aði hús­næð­islið­ur­inn að hafa meiri áhrif á verð­bólg­una, þar sem fast­eigna­verð hækk­aði hratt hér­lendis í kjöl­far vaxta­lækk­ana Seðla­bank­ans.

Á síð­ustu mán­uðum hefur vægi bens­ín­verðs í verð­bólg­unni svo auk­ist tölu­vert, en heims­mark­aðs­verð á olíu hækk­aði mikið í fyrra sökum mik­illar eft­ir­spurnar og lít­ils fram­boðs af orku.

10. 2,5 pró­senta verð­bólgu­mark­mið

Eitt af mark­miðum Seðla­bank­ans er að halda stöð­ugu verð­lagi, en frá árinu 2001 hefur bank­inn haft það lög­bundna mark­mið að halda verð­bólgu í 2,5 pró­sent­um. Mest not­aða tæki bank­ans til að stýra verð­lags­þróun eru stýri­vext­ir, sem segja til um kjörin sem bankar lands­ins geta fjár­magnað sig með.

Með hærri stýri­vöxtum versna fjár­mögn­un­ar­kjör banka og þurfa þeir því venju­lega að hækka vexti á lán­unum sem þeir gefa út. Með hærri vöxtum minnkar eft­ir­spurnin eftir nýjum lánum og því dregur venju­lega úr virkni í efna­hags­líf­inu vegna þess. Sömu­leiðis getur hærra vaxta­stig aukið áhuga erlendra fjár­festa á íslensku krón­unni, en með því styrk­ist gengi henn­ar. Báðir þessir þættir leiða til lægra verð­lags, svo við­búið er að verð­bólgan minnki þegar stýri­vextir hækka.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sonur mannsins með leppinn: „Svona flúði ég vígasamtök föður míns“
Dakota Adams, sonur leiðtoga vígasamtakanna the Oath Keepers, ólst upp við að heimsendir væri í nánd og að öruggast væri að klæðast herklæðum og eiga sem flestar byssur. Dakota tókst að frelsa móður sína og yngri systkini frá heimilisföðurnum.
Kjarninn 5. desember 2022
Pétur Krogh Ólafsson hefur verið ráðinn í nýtt starf hjá Veitum.
Aðstoðarmaður borgarstjóra ráðinn, án auglýsingar, í nýja yfirmannsstöðu hjá Veitum
Pétur Krogh Ólafsson hefur verið ráðinn í nýtt starf þróunar- og viðskiptastjóra hjá Veitum, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur. Starfið var ekki auglýst, samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá Orkuveitunni.
Kjarninn 5. desember 2022
María Heimisdóttir.
María hættir – Vill ekki taka ábyrgð á vanfjármagnaðri stofnun
María Heimisdóttir hefur sagt upp störfum sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Hún segist ekki vilja taka ábyrgð á vanfjármagnaðri stofnun.
Kjarninn 5. desember 2022
Samtal við samfélagið – English
Samtal við samfélagið – English
Samtal við samfélagið – Migration and Integration in the Era of Climate Change
Kjarninn 5. desember 2022
Samtal við samfélagið
Samtal við samfélagið
Samtal við samfélagið – Fólksflutningar og samþætting á tímum loftslagsbreytinga
Kjarninn 5. desember 2022
Helga Árnadóttir hannar og myndskreytir Lestar Flóðhesta
Lestrar Flóðhestar eru fjölskylduverkefni
Lestrar Flóðhestar eru ný spil fyrir börn sem eru að taka sín fyrstu skref í lestri. „Okkur fannst vanta eitthvað fjörugt og skemmtilegt í lestrarúrvalið fyrir byrjendur,“ segir Helga Árnadóttir sem hannar og myndskreytir spilin.
Kjarninn 5. desember 2022
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
„Þetta er bara eins og að fara með rangt barn heim af róló“
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi skaut föstum skotum að forsvarsmönnum Bankasýslunnar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og sakaði Lárus Blöndal um að hafa talað gegn betri vitund er hann sjálfur kom fyrir nefndina.
Kjarninn 5. desember 2022
Þórður Snær Júlíusson
Er Tene nýju flatskjáirnir eða eru kerfin og þeir sem stjórna þeim kannski vandamálið?
Kjarninn 5. desember 2022
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar