Stjórnarráðið.

Í átt að nýrri þjóðarsátt

28 ár eru liðin frá svokallaðri þjóðarsátt á íslenskum vinnumarkaði sem lækkaði verðbólgu og jók samráð milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar. Hversu líklegt er að sambærileg sátt náist í næstu kjarasamningum?

„Það getur ekki ríkt þjóð­ar­sátt um þjóð­ar­skömm,“ skrif­aði Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, for­maður Efl­ing­ar, í pistli sínum í Kvenna­blað­inu síð­asta vor og fjall­aði um ástandið á vinnu­mark­aðn­um. Pist­ill Sól­veigar var einn af mörgum fyr­ir­boðum um  aukna hörku í samn­ings­gerð verka­lýðs­fé­laga við atvinnu­rek­end­ur. 

Ræst hefur úr þeim fyr­ir­heit­um, en búist er við meiri átökum í kom­andi kjara­við­ræðum vetr­ar­ins en sést hefur um ára­bil.  Sam­hliða harð­ari kröfum verka­lýðs­fé­laga ótt­ast hag­fræð­ingar að sá efna­hags­legi árangur sem náðst hefur vegna 28 ára gam­allar þjóð­ar­sáttar á íslenskum vinnu­mark­aði sé í hættu. En hvers vegna ríkir svo mikil ólga á vinnu­mark­aðnum núna og hvernig væri hægt að róa hana nið­ur?

Þjóð­ar­sáttin

Umrædd þjóð­ar­sátt á vinnu­mark­aði átti sér stað í kjara­samn­ingum árið 1990. Að þeim samn­ingum komu full­trúar atvinnu­rek­enda, verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og rík­is­stjórn­ar­inn­ar, en mark­mið þeirra var að binda enda á þá óreiðu sem ríkt hafði í efna­hags­málum síð­ustu ára­tuga.

Drif­kraftur óstöð­ug­leik­ans voru reglu­bundnar geng­is­fell­ingar stjórn­valda á átt­unda og níunda ára­tugnum sem réð­ust af afkomu sjáv­ar­út­vegs­ins hverju sinni. Þessar geng­is­fell­ingar leiddu svo til hærra verðs inn­fluttra vara, en í kjöl­far þess kröfð­ust laun­þegar hærri launa. Hærri laun þrengdu loks að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­um, sem leiddi til ann­arrar geng­is­fell­ingar að hálfu stjórn­valda.

Til við­bótar við þessa víxl­verkun magn­að­ist verð­bólgan svo enn frekar þar sem verka­lýðs­hreyf­ingin var óviss um fram­tíð­ar­verð­lag og upp­færði því kröfur sínar með stuttu milli­bili og tíðum verk­föllum. Með stuttum kjara­samn­ing­um, geng­is­fell­ingum og ­nafn­launa­hækk­un­um rauk svo verð­bólgan stjórn­laust upp og náði hámarki árið 1983 í 84,3 pró­sent­u­m. 

Ásmundur Stefánsson, fyrrum forseti ASÍ, tekur hér í höndina á Einari Oddi Kristjánssyni, fyrrum formanni Vinnuveitendasambands Íslands, við undirritun Þjóðarsáttarinnar árið 1990.
Rúv

Kjara­samn­ing­unum árið 1990 var ætlað að kippa fót­unum undan þess­ari þró­un. Gegn því skil­yrði að rík­is­stjórnin lækk­aði nafn­vexti og felldi ekki gengi krón­unnar fyrir atvinnu­rek­endur sam­þykktu verka­lýðs­fé­lög hóf­legar launa­hækk­anir til lengri tíma sem byggðu á verð­bólgu­spám. Með þessu móti yrði lífs­kjara­hruni afstýrt sem blasti við, sam­kvæmt verka­lýðs­for­ingjarn­um Guð­mundi „Jaka“ Guð­munds­syni í við­tali við RÚV.

Með skil­yrðum samn­ings­ins tók hlut­verk verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar stórum breyt­ingum og deildi þannig ábyrgð­inni um fjár­mála­stöð­ug­leika með atvinnu­rek­endum og rík­is­stjórn­inni. Þannig mild­að­ist tónn hreyf­ing­ar­innar gagn­vart tals­mönnum atvinnu­lífs­ins auk þess sem svoköll­uðum „teknókröt­um“ með sér­þekk­ingu sem stuðla átti að stöð­ug­leika fjölg­aði innan henn­ar.

Ætl­unin tókst og verð­bólgan snar­lækk­aði á tíunda ára­tugnum sam­hliða stöð­ugum kaup­mátt­ar­vexti og færri verk­föll­um. Góður árangur sátt­ar­innar vatt upp á sig og styrkti traust milli verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og atvinnu­rek­enda, sem leiddi til þess að kjara­samn­ingar voru gerðir til lengri tíma. 

Frá kröfugöngu verkalýðsfélaganna þann 1. maí síðastliðinn.
Bára Huld Beck

Hriktir í stoð­unum

Mikið hefur gengið á í íslensku efna­hags­lífi frá árinu 1990, en sam­kvæmt inn­an­búð­ar­mönnum úr verka­lýðs­hreyf­ing­unni hefur þó lengst af ríkt gagn­kvæmur skiln­ingur í sam­skiptum hennar við rík­is­stjórn­ina og atvinnu­rek­end­ur. Þrátt fyrir tíð ósætti þeirra á milli lögðu full­trúar vinnu­mark­að­ar­ins sitt af mörkum til að við­halda verð­stöð­ug­leika, meðal ann­ars með því að taka mið af verð­bólgu­vænt­ingum í kjara­samn­ingum og biðja ekki um of háar launa­hækk­anir þegar kreppti að.  

Á síð­ustu árum hefur þó hrikt nokkuð í stoðum þessa sam­komu­lags, en sam­kvæmt Höllu Tinnu Arn­ar­dóttur stjórn­sýslu­fræð­ingi færð­ist aukin harka í sam­skiptum milli rík­is­stjórn­ar­innar og verka­lýðs­fé­laga milli 2011 og 2014. Á því tíma­bili fór meira að bera á  verk­föllum og verk­falls­hót­unum auk þess sem mörgum úr verka­lýðs­hreyf­ing­unni þótti erfitt að vinna með rík­is­stjórn Jóhönnu Sig­urð­ar­dóttur ann­ars vegar og Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar hins veg­ar.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.
Samsett

Tónn­inn í verka­lýðs­hreyf­ing­unni hefur svo orðið enn beitt­ari á síð­asta einu og hálfu ári með nýrri for­ystu innan stærstu stétt­ar­fé­laga henn­ar. Kjarn­inn hefur áður fjallað um breyttar áherslur Ragn­ars Þórs Ing­ólfs­sonar og Sól­veigar Önnu Jóns­dótt­ur, nýrra for­manna VR­ og Efl­ing­ar, en Ragnar hefur boðað til „átaka sem hafa ekki sést í ára­tugi“ verði kröfum stétt­ar­fé­lag­anna ekki mætt og Sól­veig Anna lýsti sig sem „bylt­ing­ar­mann­eskju“ í við­tali við Mann­líf í síð­ustu viku. 

Sömu­leiðis er búist við harð­ari afstöðu frá ASÍ í kjöl­far nýaf­stað­ins lands­þings sam­bands­ins, en þar tók Drífa Snæ­dal við af Gylfa Arn­björns­syni sem for­seti auk þess sem Vil­hjálmur Birg­is­son var kjör­inn fyrsti vara­for­seti. Sól­veig Anna og Ragnar Þór hafa bæði stutt nýja for­ystu ASÍ, en sam­kvæmt Ragn­ari Þór gengur verka­lýðs­hreyf­ingin óklofin til leiks í kom­andi kjara­samn­inga­við­ræðum með kjöri Drífu og Vil­hjálms.

Breyttar áherslur krist­all­ast í nýjum kröf­um VR­ og Starfs­greina­sam­bands­ins fyrir kom­andi við­ræð­ur, en þar er þess kraf­ist að lág­marks­laun verði 425 þús­und á mán­uði í árs­byrjun 2021.  Einnig gera félögin ann­ars konar kröfur á stjórn­völd, meðal ann­ars um 42 þús­und króna árlega launa­hækk­un, vaxta­lækk­un, stytt­ingu vinnu­vik­unnar og afnám verð­trygg­ingar á neyt­enda­lán­um.

Stöð­ug­leik­inn í hættu

Kröf­ur VR­ og Starfs­greina­sam­bands­ins gætu reynst hættu­legar verð­stöð­ug­leika ef marka má skýrslu sem Gylfi Zoëga hag­fræði­pró­fessor við Háskóla Íslands skrif­aði fyrir for­sæt­is­ráðu­neytið í ágúst síð­ast­liðn­um. Sam­kvæmt skýrsl­unni er svig­rúm til 4% launa­hækk­ana fyrir næsta árið að óbreyttum við­skipta­kjörum, en kröfur stétt­ar­fé­lag­anna munu leiða til þess að heild­ar­laun hækki um að minnsta kosti 5,6%. 

Hækki laun umfram áætl­aða verð-og fram­leiðni­þróun má búast við því að Seðla­bank­inn hækki stýri­vexti sína til að verð­bólgu­mark­mið­inu sé náð. Enn fremur er senni­legt að vextir á neyt­enda­lánum hækki enn frekar ef kröf­ur VR­ og Starfs­greina­sam­bands­ins um afnám verð­trygg­ing­ar­innar ná fram að ganga.

Vegna mik­ill­ar ­launa­hækk­un­ar og afnáms verð­trygg­ing­ar­innar yrði því erfitt að fram­kvæma þá vaxta­lækkun sem verka­lýðs­fé­lögin krefj­ast án þess að verð­bólga auk­ist veru­lega og rýri þannig kaup­mátt nýhækk­aðra launa. Rann­veig Sig­urð­ar­dóttir aðstoð­ar­seðla­banka­stjóri benti á þetta í við­tali við kvöld­fréttir Stöðvar 2, en þar sagði hún það vera lög­mál að laun geti ekki hækkað umfram fram­leiðni­aukn­ingu.

Í skýrslu sinni nefnir Gylfi einnig þau slæmu áhrif sem of mikil verð­bólga gæti haft á ferða­þjón­ust­una í land­inu. Hátt inn­lent verð­lag gæti þannig valdið fækkun erlendra ferða­manna, en slíkt myndi valda geng­is­lækkun krón­unnar og enn frek­ari verð­bólgu vegna hækkun á verði inn­flutn­ings. 

Með öðrum orðum gætu kröfur um of háar launa­hækk­anir og vaxta­lækk­anir á sama tíma raskað við­kvæmt jafn­vægi hag­kerf­is­ins og leitt til keðju­verk­unar sem lætur verð­bólg­una rjúka upp. Fari svo gæti orðið erfitt að ná aftur þjóð­ar­sátt um verð­stöð­ug­leika, líkt og ríkt hefur milli verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar, atvinnu­rek­enda og rík­is­stjórn­ar­innar síð­ustu ára­tug­i. 

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri
Samsett

Ójafn leikur

En hvers vegna hefur tónn verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar breyst svona mikið á und­an­förnum mán­uðum og af hverju taka nýjar kröfur minna til­lit til verð­stöð­ug­leika á sama tíma sem búist við meiri aðgerðum að hálfu stjórn­valda?

Full­trúar atvinnu­rek­enda og síð­asta stjórn ASÍ hafa báðar gefið í skyn að  afstöðu­breyt­ingin sé ekki í sam­ræmi við hag­töl­ur. Sam­kvæmt þeim hefur verka­lýðs­for­ystan aldrei náð jafn­miklum árangri og eftir Þjóð­ar­sátt­ina árið 1990, þar sem stöðug kaup­mátt­ar­aukn­ing fylgdi ágætum hag­vexti og lágri verð­bólg­u.  

Stefán Ólafs­son, félags­fræði­pró­fessor við Háskóla Íslands og starfs­maður Efl­ing­ar, hefur hins vegar gagn­rýnt þennan mál­flutn­ing og segir kaup­mátt­ar­aukn­ingu laun­þega, að teknu til­liti til ráð­stöf­un­ar­tekna og einka­neyslu, í raun hafa minnkað frá árinu 1990 miðað við árin á und­an. Einnig bendir Stefán á að ójöfn­uður hafi auk­ist á síð­ustu 28 árum og þannig hafi hlut­deild tekju­lágra í heild­ar­tekjum þjóðar lækkað á tíma­bil­in­u. Í aðsendri grein á Kjarn­anum í síð­asta mán­uði greindi Stefán einnig frá breyt­ingum í skatt­byrði á tíma­bil­inu, en með rýrnun per­sónu­af­sláttar og ýmissa bóta auk lægri skatt­pró­sent­u á fjár­magnstekjur hafi hún færst frá hærri tekju­hópum og yfir á þá lægri. 

Drífa Snæ­dal tók í sama streng og Stef­án í við­tali við Kjarn­ann síð­asta mars og sagði hinn vax­andi ójöfnuð hafa rofið sam­fé­lags­sátt­mál­ann milli verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Enn fremur sagði Drífa að nýlegar hækk­anir á launum æðstu emb­ætt­is­manna og ofur­launum for­stjóra fyr­ir­tækja í einka­geir­anum væru sem olía á eld­inn. Við­talið má sjá í spil­ar­anum hér að ofan.

Kjarn­inn hefur fjallað ítar­lega um þessi mál á und­an­förnum dög­um. Í leið­ara gær­dags­ins benti Þórður Snær Júl­í­us­son á að verka­lýðs­for­ystan sæki rök­stuðn­ing sinn íslenskar aðstæður sem studdar séu með raun­töl­u­m. ­Magnús Hall­dórs­son fjall­aði svo sér­stak­lega um hækk­anir kjara­ráðs á launum þing­manna og ráð­herra í leið­ara sínum fyrr í vik­unni á Kjarn­an­um, en þar benti hann á að ákvörðun stjórn­valda um að sam­þykkja og verja þessar hækk­anir hafi átt stóran hlut í að skapa þá ólgu sem nú ríkir á vinnu­mark­aði.

Ýmsar leiðir mögu­legar

Því er ljóst að stöð­ug­leiki í hag­kerf­inu er í hættu, bæði vegna aðgerða rík­is­stjórn­ar­innar og harð­ari krafna verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar. Ákall stétt­ar­fé­lag­anna um miklar launa­hækk­anir sam­hliða vaxta­lækk­un, banni við verð­trygg­ingu og stytt­ingu vinnu­vik­unnar gætu hæg­lega kynt undir verð­bólgu­bál sem erfitt væri að slökkva. Á hinn bóg­inn spruttu þessar kröfur ekki upp að þurru, þær eru afleið­ingar vax­andi ójöfn­uðar og mik­illa tekju­hækk­ana hinna efna­meiri sem stjórn­völd sam­þykktu með aðgerðum og aðgerð­ar­leysi. 

Í áður­nefndri skýrslu Gylfa Zoëga eru ýmsar leiðir nefndar þar sem hægt er að kom­ast til móts við kröfur verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar án þess að ógna verð­stöð­ug­leika. Þar ber hæst að nefna vaxta­lækkun með hag­ræð­ingu í banka­kerf­inu, þar sem sam­keppni er ábóta­vant og vaxta­munur mun meiri en í nágranna­lönd­um. Einnig telur Gylfi að sporna megi við vax­andi ójöfn­uði að ein­hverju leyti ef per­sónu­af­sláttur hækkar í sam­ræmi við með­al­laun í land­inu og nefnir einnig að stytt­ing vinnu­vik­unnar gæti leitt til hærri fram­leiðni.

Hver sem nið­ur­staðan verður við næstu kjara­við­ræður liggur fyrir að mikið þurfi til að nýtt sam­komu­lag muni líta dags­ins ljós. Með gagn­kvæmum skiln­ingi verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar, atvinnu­rek­enda og rík­is­stjórn­ar­innar yrði að minnsta kosti auð­veld­ara að koma í veg fyrir mögu­lega þjóð­ar­skömm með vaxta­hækk­unum og verð­bólgu­skoti líkt og á níunda ára­tugn­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar