Mikill meirihluti Íslendinga, eða 63 prósent, er ósáttur við framgöngu Gunnars Braga, en aftur á móti eru 24 prósent sátt við framgöngu hans.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra greindi frá því um sexleytið á fimmtudag í síðustu viku að hann hefði afhent utanríkisráðherra Lettlands bréf um að ríkisstjórnin hefði ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik. Lettar fara nú með formennsku í ráðherraráði ESB.
Síðan það kom fram haf heitar pólitískar umræður verið um málið. ESB lítur svo á að aðildarumsóknin hafi ekki formlega verið afturkölluð.
Af þeim sem tóku afstöðu segjast 44 prósent vera mjög ósátt, 19 prósent segjast vera frekar ósátt, 13 prósent segjast hvorki vera sátt né ósátt, 9 prósent segjast vera frekar sátt og 15 prósent mjög sátt.
Þegar svör allra eru skoðuð sést að 39 prósent eru mjög ósátt, 16 prósent eru frekar ósátt, 11 prósent eru hvorki sátt né ósátt, 8 prósent eru frekar sátt og 13 prósent eru mjög sátt. Átta prósent eru óákveðin og fjögur prósent svara ekki.
Könnunin var gerð 18. og 19. mars. Hringt var í 1.078 manns þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki. Það er 74,3% svarhlutfall. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.