Heildarveltan í sjávarútvegi, álframleiðslu og hugverkaiðnaði á fyrstu átta mánuðum ársins er nú tæpum fimmtungi hærri en hún var á sama tíma í fyrra og 15 prósentum hærri en á sama tímabili árið 2019, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Ef miðað er við veltu í atvinnugreinunum frá janúar til september í ár er hugverkaiðnaður næst stærsta útflutningsgrein landsins, á eftir sjávarútvegi.
Krónan enn veikari en 2019
Gengi íslensku krónunnar hefur tekið nokkrum sveiflum á þessu tímabili, en það var um níu prósentum lægra frá janúar til september í fyrra en það var á sama tímabili árið 2018, samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans.
Síðan þá hefur veiking krónunnar gengið að einhverju leyti til baka, en í ágúst var hún þó enn sjö prósentum veikari en hún var í sama mánuði árið 2019.
Sjávarútvegur stærstur, svo hugverkaiðnaður
Á meðan krónan hefur veikst hefur veltan í helstu útflutningsgreinunum að ferðaþjónustunni undanskilinni, það er að segja sjávarútvegs, hugverkaiðnaðar og álframleiðslu, aukist stöðugt. Samkvæmt veltutölum Hagstofu hefur sjávarútvegur verið stærsta útflutningsgreinin það sem af er ári, en hann velti 283 milljörðum króna frá janúar til september.
Tækni- og hugverkaiðnaðurinn er hins vegar ekki langt undan, en veltan í þeim atvinnuflokki nam 259 milljörðum króna á sama tíma. Í þriðja sætið kemur svo ferðaþjónustan með 225 milljarða króna veltu á fyrstu átta mánuðum ársins, en álframleiðslan er í því fjórða með 184 milljarða króna veltu.
Samanlögð velta álframleiðslu, hugverkaiðnaðar og sjávarútvegsins á þessu tímabili var 18 prósentum hærra en á sama tíma í fyrra. Umfang þessara greina hefur ekki aukist jafn mikið á þessu tímabili á síðustu tíu árum, en til samanburðar dróst heildarvelta þeirra saman um tvö prósent í fyrra.